Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, skrifaði nýjan kafla í golfsögu Íslands í dag á The Princes vellinum á Englandi. Haraldur endaði í öðru sæti á úrtökumóti fyrir Opna breska meistaramótið eða The Open – og tryggði sér þar með keppnisrétt á þessu sögufræga risamóti sem fram fer á Carnoustie 19.-22. júlí.
Haraldur Franklín verður þar með fyrsti íslenski karlkylfingurinn til að komast inn á eitt af risamótunum fjórum.
Haraldur lék 36 holur í dag á -2 samtals sem tryggði honum annað sætið. Tom Lewis frá Englandi varð efstur á -4, Haraldur á -2 og Retief Goosen frá Suður-Afríku varð þriðji á -1 samtals. Goosen er einn þekktasti kylfingur Suður-Afríku en hann hefur tvívegis sigrað á Opna bandaríska meistaramótinu.