Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leik í dag á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Íslenski atvinnukylfingurinn slær fyrsta höggið á risamótinu kl 17:42 að íslenskum tíma.
Ólafía Þórunn verður í ráshóp með Minami Hiruta frá Japan og Linn Grant frá Svíþjóð. Grant sigraði á úrtökumótinu sem fram fór á Englandi þar sem að Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir tóku þátt.
Ólafía verður þar með annar íslenski kylfingurinn sem kemst inn á þetta risamót atvinnukylfinga í kvennaflokki. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni lék á þessu móti í fyrra.
Mótið er eitt það allra stærsta sem haldið er ár hvert í Bandaríkjunum. Að þessu sinni fer mótið fram á Shoal Creek í Alabama.
Mótið var sett á laggirnar árið 1946 og er elsta risamótið á atvinnumótaröð kvenna. Mótið hefur yfirleitt verið haldið í júlí. Í ár fer mótið fram mun fyrr á árinu, eða í lok maí og byrjun júní.
Verðlaunaféð er um 540 milljónir kr. eða 5 milljónir bandaríkjadala. Sigurvegarinn í fyrra, Park Sung hyun frá Suður-Kóreu fékk um 97 milljónir kr. fyrir sigurinn í fyrra.
Ólafía Þórunn er að taka þátt á þessu risamóti í fyrsta sinn. Hún var fyrsti íslenski kylfingurinn sem komst inn á risamót þegar hún tók þátt á KPMG PGA mótinu í lok júní í fyrra.
Í ágúst 2017 komst Ólafía Þórunn inn á Opna breska meistaramótið og hún lék einnig á Evian meistaramótið í Frakklandi í september – sem er eitt af risamótunum fimm í kvennaflokki í golfinu.