Ríkisstjórnin íhugar nú að leggja fram lagafrumvarp um að frá og með næsta sumri verði það að greiða fyrir klám á Internetinu refsivert. Brot á lögunum gæti þýtt fangelsisvist eða sektir.
„Það færist í vöxt að boðið sé upp á kynlífstengdar athafnir, gegn greiðslu, á Internetinu og lögreglan segir að vettvangur á borð við OnlyFans verði til þess að börn og ungmenni leiðist út í vændi,“ segir ríkisstjórnin meðal annars að sögn Danska ríkisútvarpsins.
Samtök, sem aðstoða konur við að losna úr viðjum vændis og mansals, hafa hrósað tillögunni en það sama er ekki að segja um þá sem selja efni á OnlyFans.
„Mér brá mjög mikið og hafði miklar áhyggjur í upphafi. Það er eins og stjórnmálamennirnir skilji ekki alveg hvað við erum að vinna við. Mörg okkar eru sjálfstæðir atvinnurekendur, öruggt og löglegt. Þessi tillaga getur haft mikil áhrif á þá sem hafa sagt skilið við hinn hefðbundna kynlífsiðnað til að vinna í öruggara umhverfi,“ sagði Sanne Zentio, sem selur efni á OnlyFans, í samtali við TV4.