Fjölmiðlakonan bandaríska, Rachel Maddow, segir tolla Donald Trump Bandaríkjaforseta eiga sér fáránlega skýringu. Hann sé að byggja þetta á ráðgjöf aðila sem skrifaði bók þar sem hann vitnaði ítrekað í sérfræðing sem er ekki til.
Maddow segir Bandaríkin, sem og heiminn, stefna í kreppu. Þetta sé kreppa sem megi ekki rekja til heimsfaraldurs, bankahruns eða hruns hlutabréfamarkaðar heldur til þeirrar einföldu staðreyndar að Trump var kjörinn forseti.
Erfitt sé að réttlæta þá gífurlega háu tolla sem hann hefur lagt á vinveittar þjóðir og hver sérfræðingurinn eftir öðrum hafi skorað á forsetann að endurskoða þessa ákvörðun sína áður en efnahagurinn verður fyrir óafturkræfanlegu tjóni. Það sé sérstaklega grátlegt í ljósi þess hvaðan Trump fékk hugmyndina.
„Munið þið hvenær, hvers vegna og hvernig við byrjuðum yfirhöfuð að tala um tolla?“ spyr Maddow og rifjaði það svo upp. Þegar Trump bauð sig fram í fyrsta skiptið til embættis forseta var hann ekki með neina sérstaka stefnu í efnahagsmálum og enga slíka ráðgjafa. Hann bað því tengdason sinn, Jared Kushner, sem er giftur Ivanka Trump, að hafa upp á ráðgjafa.
Þetta var erfitt verk því Trump gat bara lýst með óskýrum hætti hverju hann var að leita að. Helst finna einhvern sem gæti látið hann líta út fyrir að vera hörkutól.
„Eitthvað sem lætur mig virka eins og hörkutól og eitthvað um Kína.“
Jared ákvað að leysa verkefnið með því að fara á Amazon-vefsíðuna og skoða titla bóka um efnahaginn.
„Hann fann bókartitil sem honum fannst kúl.“
Bókin hét Death by China, eða Kínadauðinn, og var skrifuð af manni sem heitir Peter Navarro.
„Navarro var mikill talsmaður aggresívrar tollastefnu. En hvaðan fékk Peter Navarro þá hugmynd að tollar væru góð stefna fyrir Bandaríkin? Hvernig rökstuddi hann þessa skoðun sína? Sko, hann var með stuðning frá sannkölluðum sérfræðingi sem hann vitnaði til í minnst sex af bókum sínum, þar með talið bókinni sem Jared fann á Amazon, þennan örlagaríka dag. Peter Navarro vitnar í hagfræðisérfræðing í öllum bókum sínum til að réttlæta afstöðu sína og þessi sérfræðingur sem hann vitnar til kallast Ron Vara.“
Eftir að Trump tók við embætti fóru minnisblöð að ganga um í höfuðborginni Washington þar sem Ron Vara lýsti yfir stuðningi við tollastefnu í milliríkjaviðskiptum. Þessi minnisblöð komu frá netfangi sem átti að tilheyra Ron Vara. Vara sagði í einu minnisblaði að Trump myndi sigla á tollum til sigurs.
„Vandinn er að Ron Vara er ekki til. Hann hefur aldrei verið það. Hagfræðisérfræðingurinn sem Peter Navarro hefur lengi vitnað í til að útskýra hvers vegna hann er svona heitur fyrir tollum, þessi maður Ron Vara, er tilbúningur. Hann er skáldskapur. Peter Navarro fann Ron Vara upp sem heimild svo hann gæti vitnað í meintan sérfræðing, ítrekað, í þessum gölnu bókum sínum.“
Nafnið er stafarugl eftirnafns Navarro.
„Svona bjó ríkisstjórn Trump til tollastefnu sína. Þaðan fékk Trump hugmyndina að tollunum, með því að dreifa fölskum minnisblöðum frá skáldaðri manneskju með gervinetfang til að láta það líta út eins og þetta væri alvöru hugmynd frá raunverulegum sérfræðingum. Þetta er gáfulegi grunnurinn sem Donald Trump hefur nú notað til að þurrka út sex billjón dollara af auð og til að kollvarpa bandarískum mörkuðum og til að færa Bandaríkin og heiminn að brún sjálfskaparkreppu á pari við þá sem við fengum árið 2008 og þeirrar sem faraldurinn skellti á okkur árið 2020. Að þessu sinni eru alþjóðlegu hamfarirnar stóri heilinn hans Donald Trump.“
Trump hefur sjálfur nýtt sér skáldaðar persónur, og jafnvel skírt yngsta barn sitt eftir einni slíkri. Á 9. áratug síðustu aldar svaraði aðili sem kallaði sig John Barron gjarnan fyrirspurnum fjölmiðla fyrir hans hönd, en Trump var á þessum tíma einkum í fasteignaviðskiptum. Seinna kom í ljós að John Barron var ekki til heldur var þetta dulnefni sem Trump notaði til að geta sagt það sem hann vildi án þess að bera á því fulla ábyrgð. Smá eins og Navarro notaði Ron Vara til að sannfæra lesendur um að tollahugmyndir hans væru ekki galnar.