Kannski upplifir þú að það er erfiðara að sofa, húðin breytist eða þá að þér finnst líkaminn þyngri en áður og það þrátt fyrir að þú hafir ekki breytt venjum þínum.
Við eigum öll von á að eldast stig af stigi. Flestir ímynda sér að grá hár, hrukkur og aumir liðir læðist aftan að þeim með árunum.
En niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Stanford háskólann og Nanyang Tækniháskólann, sýna að öldrun á sér ekki stað eins línulega og við höldum.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að líkaminn gangi í gegnum tvö „stökk“ í öldrunarferlinu. Það fyrra er á fimmtugsaldrinum og það seinna á sjötugsaldri.
Vísindamennirnir rannsökuðu 108 manns á aldrinum 25 til 75 ára og tóku reglulega lífsýni úr þeim. Blóð, hægðir og munnvatnssýni afhjúpuðu að ákveðnar sameindir og örverur breyttust mikið á fyrrgreindum aldursskeiðum. Þessar breytingar voru í allt frá hjarta- og æðakerfinu og vöðvunum til ónæmiskerfisins og húðarinnar.
Fyrsta stóra breytingin á sér stað um 44 ára aldur. Þá upplifa margir að efnaskipti líkamans breytast og að geta hans til að brenna fitu og alkóhóli verður hægari.
Teygjanleiki húðarinnar minnkar og vöðvarnir bregðast ekki eins hratt við og áður. Þetta á við um bæði karla og konu og kom það vísindamönnunum mjög á óvart.
Margir töldu að þetta aldursskeið tengdist aðallega tíðahvörfum kvenna en í ljós kom að svipaðar breytingar verða hjá körlum.
Næsta stóra breytingatímabil er í upphafi sjötugsaldursins. Þá veikist ónæmiskerfið og hættan á að fá hjarta- og æðasjúkdóma og aðra aldurstengda sjúkdóma eykst töluvert.
Geta líkamans til að vinna úr koffíni og alkóhóli minnkar enn frekar og orkustig líkamans lækkar.
Það að eldast er auðvitað óhjákvæmilegur hluti af lífinu en það er hægt að gera eitt og annað til að hægja á verstu aldurstengdu breytingunum.
Vísindamennirnir benda á að lífsstíllinn leiki lykilhlutverk í hversu hratt þessar breytingar hafa áhrif á líkamann.
Vísindamennirnir mæla með því að fólk temji sér eftirfarandi til að vinna gegn þessum breytingum:
Regluleg hreyfing, sérstaklega styrktaræfingar og þolþjálfun.
Mataræði sem inniheldur mikið grænmeti, trefjar og holla fitu.
Góður svefn og að takast á við stress.
Takmarka áfengis- og koffínneyslu.
Andlegar æfingar og félagsleg virkni.
Það getur verið freistandi að hunsa þessar litlu breytingar en vísindamennirnir leggja áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðir eru lykillinn að því að koma líkamanum sterkum í gegnum þessi tímabil.