Þessari spurningu var beint til eldra fólks á samfélagsmiðlinum Reddit en þar er allt milli himins og jarðar rætt, allt frá dýpstu spurningunum um tilgang lífsins til undarlegra kenninga um af hverju kettir stjórna heiminum.
Meðal þess sem eldra fólk var spurt að, var:
Hvað er það besta og versta við að eldast? – Það besta? Frelsi, kaldur bjór og markmið sem gefa lífinu tilgang, sagði einn.
Annar nefndi það sem alla dreymir um á þrítugsaldri – Peninga, ekki „ég kaupi snekkju“ heldur öryggi. Að geta keypt tvo pakka af osti án þess að þurfa að kíkja fyrst í heimabankann til að gá hvort maður eigi fyrir þeim.
Annar sagði: „Það er svo gott að peningar ráða því ekki alltaf hvað ég get gert.“
Kona ein sagði: „Markmið mín á þrítugsaldri: Fá góða vinnu, þéna peninga, finna góðan mann og stofna fjölskyldu. Markmið mín á sextugsaldri: Drekka kaldan bjór. Skemmta mér með vinum mínum. Dansa.“
Einnig var nefnt að einn af kostunum við að eldast sé að geta notið barnanna sinna, sem séu orðin fullorðin, spila tölvuleiki eftir vinnu án þess að þurfa að biðja um leyfi og að gera bara það sem maður vill um helgar. „Frelsi sem maður áttar sig ekki á að maður saknaði, fyrr en maður fær það aftur.“
En hvað er það versta við að eldast?
Sumir nefndu hinn sársaukafulla sannleika – „Að sjá foreldra sína eldast og missa þá.“
Aðrir nefndu líkamann sem virðist hafa sína eigin stefnuskrá: „Ég er í betra formi núna á fertugsaldri en ég var á þrítugsaldri. En ef ég meiðist? Þá tekur það þrisvar sinnum lengri tíma að jafna sig.“
„Eftirsjá byggist upp. Gæti hafa gert, hefði átt, vildi eiga . . . það sleppur maður ekki alltaf við.“
Hreinskilnasta svarið var kannski: „Einmanaleiki. Það er eins og heimurinn geti gleymt þér.“