Ross sendi nefnilega vafasamt myndband af sér, sem ætlað var kærustu hans, til lögmanns borgarinnar, Stefanie Stalheim. Ross sagði af sér á þriðjudag í kjölfar þess að skýrsla um málið var birt opinberlega.
Forsaga málsins er sú að Tom hafði nýlokið símtali við Stefanie þar sem þau ræddu sjálfsvíg lögreglumanns í borginni. Nokkrum mínútum eftir að símtalinu lauk sendi hann myndbandið, en gerði þau mistök að senda það til Stefanie í staðinn fyrir að senda það til kærustu sinnar.
Nákvæmar upplýsingar um efni myndbandsins hafa ekki verið gerðar opinberar en í fréttum bandarískra fjölmiðla er tekið fram að það hafi verið „lewd“ – en það þýðir ósæmilegur eða klúr og er oft notað í kynferðislegu samhengi.
Tom notaðist við iPhone-snjallsíma í umrætt sinn sem hann kvaðst ekki kunna vel á. Hann væri vanur Samsung-símum. Þá voru Stefanie og kærasta hans nánast hlið við hlið í símaskránni í síma hans.
Ross kvaðst hafa áttað sig á mistökunum andartaki eftir að myndbandið fór frá honum. Bað hann Stefanie um að horfa ekki á myndbandið, eyða því strax og segja engum frá því sem gerst hafði.
Svo virðist sem Stefanie hafi hins vegar horft á myndbandið, eða hluta þess, því hún hafði samband við mannauðsstjóra borgarinnar sem sá einnig brot úr myndbandinu. Lagði hún inn kvörtun í kjölfarið.
Nefnd fór yfir málið og komst að þeirri niðurstöðu að myndbandið hefði sett Stefanie í óþægilega stöðu í ljósi þess að hún var undirmaður Ross.
Í yfirlýsingu sem Ross sendi frá sér í kjölfar afsagnarinnar sagðist hann taka fulla ábyrgð á því sem gerðist. Nýr borgarstjóri verður væntanlega skipaður innan tveggja vikna.