Eyjan tilheyrir Andaman og Nicobar-eyjaklasanum og er hluti af Indlandi. Blátt bann er lagt við ferðum til eyjarinnar, bæði til að vernda ættbálkinn á svæðinu og þá sem gætu reynt að komast í snertingu við íbúa þar.
Skemmst er að minnast atviks árið 2018 þar sem bandaríski trúboðinn John Allen Chau var drepinn á eyjunni þegar hann reyndi að boða kristni á eyjunni.
Sjá einnig: Vopnaður biblíu gekk hann á land á eyjunni og var drepinn – Myndband
Í frétt Mail Online kemur fram að Polyakov hafi komið til hafnar í Port Blair, höfuðstað Andaman og Nicobar-eyja, þann 26. mars síðastliðinn og hann hafi haldið af stað á litlu sjófari í átt að North Sentinel þremur dögum síðar. Hann er sagður hafa komist á eyjuna síðastliðinn laugardag og blásið í flautu í þeirri von að vekja athygli íbúa þar.
Í frétt Mail Online, sem vísar í frétt The Press Trust of India, kemur fram að enginn hafi gefið sig fram. Hann er sagður hafa dvalið á sjófari sínu í um klukkustund en komið í land í um það bil fimm mínútur áður en hann hafði sig á brott. Tók hann upp myndband auk þess að skilja eftir kókoshnetu og kókdós fyrir ættbálkinn.
Polyakov hefur verið gagnrýndur harðlega vegna málsins. Í fyrsta lagi hafi hann sett sjálfan sig í stórkostlega hættu með uppátæki sínu en ekki síður sett ættbálkinn í stórhættu. Vegna einangrunar sinnar er ættbálkurinn afar viðkvæmur fyrir utanaðkomandi áreiti og gætu sjúkdómar á borð við mislinga og inflúensu gert út af við íbúa þar.
Lögregla telur að Polyakov hafi skipulagt ferð sína vandlega áður en hann lagði af stað í siglinguna sem tók um níu klukkustundir. Hann var handtekinn við komuna aftur til Andaman og Nicobar-eyja og lagði lögregla hald á sjófar hans.