Drengurinn hafði þá gengið um 10 kílómetra um svæði þar sem fjallaljón ráða ríkjum. Það var hundur sem fann hann og fékk hann með sér heim á landareign bóndans að sögn lögreglunnar.
Það liðu 16 klukkustundir frá því að tilkynnt var um hvarf drengsins þar til hann fannst. Þá hringdi bóndinn, sem heitir Scottie Dunton og býr í um 10 km fjarlægð frá heimili drengsins, í lögregluna og sagði að hundurinn hans, Buford, hafi komið heim með drenginn.
„Ég var að fara að heiman og hafði heyrt um týnda barnið. Þegar ég ók eftir heimkeyrslunni sá ég að hundurinn minn sat við hliðið. Ég leit upp og sá lítið barn standa við hliðina á honum,“ sagði Dunton að sögn Sky News.
Hann sagði að Buford sé venjulega á ferð um landareignina til að halda sléttuúlfum fjarri. „Hann elskar börn og ég get ekki ímyndað mér að hann hefði skilið hann eftir einan,“ sagði Dunton.
Hann sagðist hafa róað drenginn, sem var í náttbuxum og vesti, sem hafi síðan sagt honum að hann hafi „legið undir tré“ um nóttina þar til Buford fann hann.