„Ef Hvíta húsið vildi prófa hvaða áhrif það hefði á markaðinn að reka Jerome Powell, þá tókst þeim það á mánudaginn,“ skrifar ritstjórn Wall Street Journal (WSJ) í pistli og skýtur föstum skotum á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Fyrir helgi greindi efnahagsráðgjafi Trump, Kevin Hassett, frá því að til skoðunar væri að reka Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Trump hefur gagnrýnt Powell harðlega undanfarið fyrir að lækka ekki stýrivexti og eins varð forsetinn ekki lukkulegur þegar Powell varaði við því í síðustu viku að tollastríð Trump muni hafa í för með sér verðhækkanir og versnandi efnahag.
WSJ segir að Hassett hefði betur sleppt þessum ummælum sínum en þegar markaðir opnuðu í gær hrundu hlutabréf, dollarinn veiktist og vextir á ríkisskuldabréfum hækkuðu sem bendir til þess að fjárfestar séu að losa sig við bréfin. WSJ segir að það eina sem Trump og Hassett séu að græða á þessum árásum sínum gegn Powell er að auka óvissu og óstöðugleika og þar með kynda undir aðstæður sem eru ekki hentugar vaxtalækkunum.
„Herra Trump heldur að hann geti kúgað alla til hlýðni, en hann getur ekki kúgað Adam Smith sem fæst við raunveruleikann. Markaðir vita að tollar eru skattar og að skattar sporna við vexti,“ skrifar ritstjórnin og bætir við að áætlanir um að framlengja skattaívilnanir til hinna ríku og afregluvæðingu viðskiptalífsins muni ekki vega á móti þeim skaða sem tollarnir hafa og munu valda.
Þarna vísar ríkisstjórnin til skoska hagfræðingsins Adam Smith sem var uppi á 18. öld, en frægustu skrif hans varða frjáls viðskipti, hvernig þjóðir geta auðgast á frjálsum og óheftum alþjóðaviðskiptum og hvernig viðskiptahindranir af ýmsu tagi geta stuðlað að fátækt. Smith varaði sömuleiðis við því að gjalda líku líkt í tollastríði.
WSJ bendir á að Trump ætli sér að endurreisa alþjóðaviðskipti frá grunni. Það sé þó hætt við því að tilraun hans mistakist. Í það minnsta virðist alþjóðasamfélagið hafa litla trú á honum sem kristallist í því að þjóðir og fjárfestar eru nú í stórum hrönnum að selja bandarísk hluta- og skuldabréf.
„Greindir forsetar fylgjast með þeim merkjum sem markaðurinn er að gefa frá sér og aðlaga sig að þeim. Aðlögun á þessum tíma myndi felast í því að ná sem fyrst samkomulagi til að binda endi á þetta tollafár. Halda fram einhverjum viðskiptasigri og svo segja þetta gott. En markaðirnir eru núna taugaveiklaðir því þeir vita ekki hvort að herra Trump hlustar á nokkurn annan en sína eigin hvatvísi.“
Rétt er að geta þess að í Bandaríkjunum er ekki hlaupið að því að reka seðlabankastjóra sísvona. Í raun hefur Trump ekki beinar valdheimildir til slíks heldur þyrfti hann að fara í langt og strangt ferli til að koma Powell af, nokkuð sem sérfræðingar telja að sé bókstaflega til þess fallið að grafa enn frekar undan trausti alþjóðasamfélagsins til bandaríska hagkerfisins.