Í júní 2024 bar Ravi Jayaram, barnalæknir, vitni í máli Letby þegar Manchester Crown Court var með málið til meðferðar. Hann sagðist hafa verið í vinnu þann 17. febrúar 2016 þegar fyrirburi lést við grunsamlegar kringumstæður þegar Letby annaðist barnið.
Jayaram sagðist hafa komið inn á stofuna um hálfri annarri klukkustund eftir að barnið kom í heiminn og hafi séð Letby standa yfir barninu. Þegar hann hafi komið nær hafi hann séð að súrefnisslanga barnsins var ekki tengd við það. Hann sagði að Letby hefði hvorki hrópað á hjálp eða ýtt á neyðarrofa áður en hann kom inn á stofuna.
Vitnisburður hans var á sama veg þegar hann kom fyrir dóm 2023.
En nú eru uppi efasemdir um hvort þetta sé rétt lýsing hjá honum.
Breski miðillinn UnHerd hefur komist yfir tölvupóst frá Jayaram, sem hann skrifaði nokkrum mánuðum eftir að barnið lést, þar sem hann lýsir málsatvikum á annan hátt.
Letby var fundin sek um morð á sjö nýburum og sex morðtilraunir 2023. Ári síðar var hún fundin sek um að hafa reynt að myrða kornabarnið sem súrefnisslangan var ekki tengd við.
Hún hefur ávallt neitað sök og hefur tvisvar reynt að fá mál sitt tekið upp af áfrýjunardómstóli en hann hefur hafnað kröfum hennar.
Jayaram bar vitni í báðum réttarhöldunum og framburður hans vóg mjög þungt því hann var sá eini sem hafði „næstum“ staðið Letby að verki.
En fyrrgreindur tölvupóstur hefur nú sáð efasemdum um áreiðanleika framburðar hans. Verjendur Letby vissu ekki af þessum tölvupósti fyrr en eftir réttarhöldin.
Í tölvupóstinu, sem var skrifaður 4. maí 2017, tæpum 2,5 mánuðum eftir að kornabarnið lést, skrifaði Jayaram sjö starfsbræðrum sínum: „Letby hjúkrunarfræðingur var við hitakassann og hringdi í Ravi Jayaram lækni til að láta hann vita af lágri súrefnismettun.“
Hann skrifaði einnig að andlát barnsins megi rekja til vandamála sem tengjast mjög snemmbúnum fæðingum.
Fyrir dómi beindi hann grunsemdum sínum hins vegar að Letby og sagði meðal annars: „Það voru mörg óvenjuleg tilfelli með kornabörn og margir vinnufélagar og ég höfðum tekið eftir að Lucy Letby var alltaf til staðar þegar eitthvað gerðist.“
Letby hefur sakað Jayaram og þrjá aðra lækna um samsæri þar sem hún var gerð að sökudólgnum.
„Þeir vörpuðu sökinni á mig. Ég held að það hafi verið gert til að leyna mistökum á sjúkrahúsinu,“ sagði hún fyrir dómi 2023.
Í febrúar á þessu ári komst sérfræðingahópur, sem samanstendur af 14 sérfræðingum víða að úr heiminum, að þeirri niðurstöðu að Letby hafi ekki banað börnunum. „Öll dauðsföllin og meiðslin eiga sér eðlilegar skýringar eða urðu vegna lélegrar læknismeðferðar,“ sagði Dr. Shoo Lee, formaður hópsins, á fréttamannafundi.
Fyrri rannsókn Shoo Lee var hluti af sönnunargögnum saksóknara fyrir dómi. Shoo Lee segir að niðurstöður hennar hafi verið rangtúlkaðar og því hafi hann ákveðið að blanda sér í mál látnu kornabarnanna. BBC skýrir frá þessu.
„Það voru engin morð. Þetta er mat okkar, læknisfræðilegt mat að það eru engar læknisfræðilegar sannanir fyrir morðum,“ sagði Shoo Lee fyrir hönd hópsins en hann fór í gegnum 35.000 blaðsíður af læknisfræðilegum gögnum sem voru lögð fyrir dóm í málum Letby.
Skýrsla hópsins er hluti af þeim gögnum sem verjendur Letby hafa sent Criminal Cases Review Commission (CCRC) í von um að nefndin rannsaki hvort dómsmorð hafi verið framið.
Talsmaður CCRC sagði í samtali við The Independent að nefndinni hafi borist gögn í máli Letby og sé málsmeðferðin hafin. The Guardian segir að það geti hins vegar tekið CCRC mörg ár að ljúka meðferð málsins.