Myndirnar voru teknar af Maxar Technologies og Planet Labs þann 6. apríl síðastliðinn og sýna ógnarstórt skip við Nampo-skipasmíðastöðina á vesturströnd Norður-Kóreu.
CNN hefur eftir sérfræðingum að myndin sýni að um herskip sé að ræða sem er líklega um tvöfalt stærra en þau stærstu sem fyrir eru í flotanum. Af myndunum að dæma verði skipið meðal annars búið palli til að skjóta eldflaugum af.
CNN hefur eftir Joseph Bermudez hjá bandarísku hugveitunni CSIS að skipið sé að líkindum um 140 metrar á lengd.
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa á undanförnum misserum reynt að nútímavæða her sinn og er nýja herskipið einn af lykilþáttunum í því að sögn sérfræðinga.
Í frétt CNN er haft eftir Kim Duk-ki, fyrrverandi aðmírál í suðurkóreska hernum, að hann telji að Rússar hafi aðstoðað Norður-Kóreumenn við smíði skipsins.