Í ljós kom að Daisy hafði smitast af mislingum, mjög smitandi veirusjúkdómi sem meðal annars einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Sjúkdómurinn getur verið hættulegur sumum einstaklingum, einkum börnum, en besta forvörnin er bólusetning.
En í tilviki Daisy – og margra annarra íbúa á þessu strjálbýla svæði – fékk hún ekki bóluefni gegn veirunni. Hún lést af völdum smitsins fyrr í þessum mánuði og er annað barnið í þessu litla samfélagi sem deyr af völdum mislinga á árinu.
Daisy og fjölskylda hennar eru menónítar sem boða algjöra hlýðni við orð krists og lifa lífi sínu í auðmýkt og nægjusemi. Fjölskylda Daisy hafnar bólusetningum eins og margir aðrir íbúar í vesturhluta Texas þar sem mislingafaraldurinn hefur náð hvað mestri útbreiðslu. Samsæriskenningar gegn bólusetningum hafa skotið rótum og traust á opinberum stofnunum, eins og heilsugæslu, hefur dvínað.
Daily Mail birti í vikunni úttekt á stöðu mála í þessum litla sjö þúsund manna bæ þar sem rætt var við nokkra íbúa Seminole, þar á meðal ungar mæður, verkamenn og vörubílstjóra sem öll áttu það sameiginlegt að vera tortryggnir gagnvart bólusetningum.
Lýstu þeir því að bóluefni innihéldu „hættuleg efni“ og að lyfjafyrirtækin framleiddu efnin með það eina sjónarmið að græða peninga.
Í umfjölluninni kemur fram að undanþágur frá bólusetningum í Gaines-sýslu, þar sem bærinn Seminole er, séu með því hæsta sem gerist í Bandaríkjunum. Um 13 prósent barna í skólum á svæðinu eru með undanþágu frá bólusetningum, ýmist af heimspekilegum eða trúarlegum ástæðum, í samanburði við 3% á landsvísu.
Aðeins 82 prósent barna í leikskóla í sýslunni fengu MMR-bólusetningu á síðasta ári, sem er langt undir þeim 95 prósentum sem talið er þurfa til að ná „hjarðónæmi“.
Þegar Daisy veiktist reyndu aðstandendur hennar að veita henni meðferð heima. Þegar það gekk ekki var farið með hana á sjúkrahús þar sem hún fékk sýklalyf og var send heim. Þremur dögum síðar versnaði ástand hennar enn frekar og var hún þá greind með alvarlega lungnabólgu sem endaði á að draga hana til dauða. Sex ára stúlka, einnig óbólusett og úr sama samfélagi menóoníta, lést nokkrum vikum fyrr úr mislingum. Eru þetta fyrstu dauðsföllin af völdum mislinga í Bandaríkjunum í áratug.
Á þessu ári hafa yfir 700 tilfelli mislinga komið upp í Bandaríkjunum, þar af 541 í Texas. Stefnir allt í að þetta ár verði það versta í áratugi með tilliti til þessa bráðsmitandi veirusjúkdóms.
Faðir Daisy, Peter Hildebrand, hefur litla trú á því að bóluefni hefði bjargað dóttur hans. MMR-bóluefnið, sem er hluti af barnabólusetningu hér á landi, er sagt veita 93% vörn gegn smiti og 97% vörn eftir tvær sprautur. Án þessarar bólusetningar er hættan á alvarlegum veikindum mikil – þá sérstaklega hjá ungum börnum.
Bent er á það í umfjöllun Daily Mail, sem vísar í tölur frá CDC, sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna, að eitt af hverjum fimm óbólusettum börnum sem fá mislinga séu lögð inn á sjúkrahús. Eitt af hverjum 20 fær lungnabólgu og 1-3 af hverjum þúsund deyja.
Blaðamaður Daily Mail heimsótti verslunina Healty 2 U, sem er rekin af menónítum í Seminole, og vakti það athygli hans að þar voru allar hillur fullar af lýsi og A-vítamíni. „Við mælum með þessu fyrir alla sem veikjast,“ sagði verslunarstjórinn Nancy þegar rætt var við hana. Sumir bóluefnaandstæðingar telja að vítamín og náttúruleg fæðubótarefni veiti vörn gegn mislingum.
Þá er þess getið að blaðamaður hafi hitt tvær menónítakonur – Helen og Helenu – fyrir utan verslun Walmart í bænum. Önnur sagði að hún hafi látið bólusetja börnin sín, því það væri rétt ákvörðun en hin sagðist ekki hafa gert það, því hún trúði að sýkingar eins og mislingar „styrktu ónæmiskerfið“.
Judy sagði að hún og fjölskylda hennar vilji ekki sjá MMR-bóluefnið því „þau kunni ekki við innihaldsefnin í því“ eins og hún orðaði það. Önnur kona, Joselyn að nafni, sagðist ekki vilja láta bólusetja börnin sín þrátt fyrir faraldurinn því hún viti um fólk sem hefur veikst í kjölfar bólusetningar.
Á vef Heilsuveru er bent á að bóluefni veiti góða vörn gegn mislingum, en bólusetning hér á landi hófst árið 1976.
„Flestir einstaklingar fæddir fyrir 1970 fengu mislinga. Sumir einstaklingar fæddir á árunum 1970-1975 fengu mislinga og aðrir fengu bólusetningu ef óskað var eftir henni. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Rétt er takmarka ferðalög með óbólusett börn til landa þar sem hætta er á smiti.“
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir sagði í viðtali í mbl.is í fyrrasumar að þátttökuhlutfall í bólusetningum gegn mislingum hér á landi væri um það bil 90% en þyrfti að vera um 95% til að ná hjarðónæmi.
„Þetta er mjög gott bóluefni. Það ver bæði gegn smiti, sem ekki öll bóluefni gera, en síðan líka gegn veikindum auðvitað. Hjá okkur er þátttakan fyrir skammt eitt og tvö – það eru sem sagt tveir skammtar – um 90% þegar hún þyrfti að vera yfir 95%. Þá erum við í hættu á því að það geti dreifst mislingar ef þeir koma til okkar,“ sagði Guðrún í viðtalinu.