Í nýrri rannsókn voru vinsæl fæðubótarefni rannsökuð og niðurstaðan er líklega mikil vonbrigði fyrir marga sem eru að reyna að byggja upp vöðva.
Nettavisen segir að vísindamennirnir hafi rannsakað áhrif hins vinsæla kreatínsfæðubótarefnis á vöxt vöðvanna hjá þeim sem stunda líkamsrækt.
54 tóku þátt í rannsókninni og stunduðu líkamsrækt í 12 vikur. Helmingur þátttakendanna tók fimm grömm af kreatíni daglega, það er ráðlagt magn, en hinn helmingurinn tók ekki kreatín.
Þegar rannsókninni lauk hafði fólkið í báðum hópunum náð sama árangri hvað varðaði stærri vöðva, höfðu bætt á sig um tveimur kílóum að meðaltali.
Mandy Hagstrom, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að í rannsókninni hafi verið sýnt fram á að það hafi engin áhrif fyrir vöðvavöxt, þegar líkamsrækt er stunduð, að taka fimm grömm af kreatíni daglega.
Í fyrstu vikunni þyngdist fólkið í kreatínhópnum aðeins, sérstaklega konurnar, en vísindamennirnir segja að líklega hafi það verið vegna vökvasöfnunar.