fbpx
Sunnudagur 13.apríl 2025
Pressan

Hann var í blóma lífsins og hún á leiðinni á toppinn en þá var haldið partý

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 12. apríl 2025 22:00

Roscoe „Fatty“ Arbuckle og Virginia Rappe.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Roscoe Conkling Arbuckle var feitlaginn og oftast kallaður gælunafni sínu, Fatty. Á öðrum áratug síðustu aldar og fram á þann þriðja var hann einn af vinsælustu stjörnunum í Hollywood en eins og flest eflaust vita voru kvikmyndir þöglar í þá daga. Hann lék, leikstýrði og skrifaði handrit. Arbuckle er sagður hafa leiðbeint framtíðarstjörnum eins og Charlie Chaplin, Bob Hope og Buster Keaton. Í dag er hans hins vegar einna helst minnst fyrir partý sem hann og vinir hans héldu á hóteli í borginni San Francisco í september 1921. Meðal viðstaddra var leikkonan Virginia Rappe. Hún var ekki alveg jafnmikil stjarna og Arbuckle en hlutverkunum fór fjölgandi og hún virtist stefna hraðbyri upp á stjörnuhimininn. Partýið endaði hins vegar með hreinræktuðum hryllingi fyrir leikkonuna ungu og þá stóðu öll spjót á Arbuckle og líf hans varð aldrei samt.

Partýið var haldið á St. Francis hótelinu í San Francisco. Hótelið er enn starfandi í dag en heitir nú Westin St. Francis. Partýið var haldið 5. september 1921 en sá mánaðardagur er dagur verkalýðsins í Bandaríkjunum sem kjósa að fylgja ekki flestum ríkjum heims sem hafa verkalýðsdaginn 1. maí.

Þegar þarna var komið við sögu var Arbuckle orðinn 34 ára en Virginia Rappe var örlítið yngri og stóð á þrítugu. Arbuckle og tveir vinir hans buðu nokkrum fjölda kvenna í partýið og hún var ein þeirra sem mættu. Alls leigðu vinirnir þrjú herbergi. Þegar leið á kvöldið kom upp úr krafsinu að Rappe væri orðin alvarlega veik. Læknir var kallaður til. Hann taldi ljóst að leikkonan hefði einfaldlega drukkið of mikið áfengi og gaf henni morfín til að róa hana niður. Það átti hins vegar alls ekki eftir að duga til.

Þvagblaðra

Tveimur dögum síðar hafði heilsa Rappe ekkert skánað, raunar versnað, og hún var í kjölfarið flutt á sjúkrahús. Eftir tveggja daga vist á sjúkrahúsinu lést hún úr svokallaðri kviðhimnubólgu (e. Peritonitis) en eins og orðið gefur til kynna felur það sér bólgur í himnunni sem er utan um kviðarholið. Kviðhimnubólga getur valdið andnauð og því að líkaminn fari í lost.

Það sem orsakaði kviðhimnubólguna hjá Rappe var að þvagblaðra hennar hafði sprungið. Hver orsökin nákvæmlega var hefur aldrei verið skýrt til fullnustu en Rappe mun hafa glímt við þrálátar þvagfærasýkingar og vitað er að áfengisneysla getur valdið því að slíkar sýkingar versni. Fyrsta skýringin sem kom upp úr krafsinu var hins vegar sú að Rappe hefði verið nauðgað og þess vegna hefði farið svona. Kona að nafni Bambina Maude Delmont sem hafði farið með Rappe í partýið fullyrti að áðurnefndur Roscoe „Fatty“ Arbuckle hefði nauðgað henni. Delmont þekkti Rappe þó ekki vel en þær höfðu fyrst hist nokkrum dögum áður en Delmont var á sakaskrá fyrir fjárkúgun og vændi.

Daginn eftir var Arbuckle handtekinn og hann var síðan í kjölfarið ákærður fyrir morð.

Delmont stóð föst á því að Arbuckle hefði nauðgað Rappe og lögreglan taldi að þar sem hann væri svo þungur hefði það valdið því að þvagblaðra Rappe hefði sprungið. Umboðsmaður hennar fullyrti að Arbuckle hefði notað klakastykki við nauðgunina. Úr varð heljarinnar fjölmiðlafár. Sagan um klakastykkið tók hins vegar breytingum en hún var þegar komin á kreik. Vitni greindu hins vegar frá því að þvert á móti hefði Arbuckle notað klakastykkið til að reyna að lina þjáningar Rappe vegna hinna miklu kviðverkja sem hrjáðu hana

Vel liðinn en máttu ekki verja hann

Arbuckle var almennt vel liðinn í kvikmyndageiranum. Þeir sem þekktu hann best sögðu hann vera góðan mann sem væri hins vegar feiminn við konur. Yfirmenn kvikmyndavera óttuðust hins vegar neikvæða fjölmiðlaumfjöllun og bönnuðu leikurum og öðrum vinum Arbuckle í geiranum að verja hann opinberlega. Charlie Chaplin og Buster Keaton hlýddu því hins vegar ekki og Chaplin sagði blaðamönnum að hann væri sannfærður um að Arbuckle myndi ekki gera flugu mein.

Saksóknari San Francisco, Matthew Brady, hafði mikinn metnað og ætlaði að nýta sér málið til að komast langt í stjórnmálum. Hann fullyrti opinberlega að Arbuckle væri sekur og reyndi að þvinga vitni til að veita falska vitnisburði sem varpa myndu sök á Arbuckle. Bambina Maude Delmont var helsta vitnið en lögmenn Arbuckle komust yfir bréf þar sem hún viðurkenndi að hafa ætlað að kúga fé út úr umbjóðanda þeirra. Vitnisburður hennar breyttist í sífellu og dómari var við það að vísa málinu frá en þegar hann heyrði vitnisburð frá öðrum gesti í partýinu um Rappe hefði sagt áður en hún dó að Arbuckle hefði meitt hana leyfði hann að málið færi fyrir rétt og að kviðdómur myndi skera úr um sekt eða sakleysi Arbuckle.

Gula pressan

Fjölmiðlaumfjöllunin var grimmúðleg og var Arbuckle í dagblöðum lýst sem manni sem bryti á saklausum stúlkum með því að nýta þyngd sína til að yfirbuga þær.

Í réttarhöldunum var meðal vitna hjúkrunarfræðingur á spítalanum sem sagði mjög líklegt að Arbuckle hefði nauðgað Rappe. Læknirinn sem meðhöndlaði Rappe fyrst á hótelinu sagði að þrýstingur á líkama hennar hefði orðið til þess að þvagblaðra Rappe sprakk og sömuleiðis var fullyrt að fingraför Rappe hefðu fundist á dyrakarmi og væri það sönnun þess að hún hefði reynt að flýja frá Arbuckle. Lögmaður hans fékk það hins vegar upp úr vitnum að herbergið þar sem Rappe fannst hefði verið þrifið rækilega áður en vettvangsrannsókn fór fram. Læknirninn viðurkenndi að Rappe hefði aldrei tjáð honum að Arbuckle hefði nauðgað henni eða beitt hana nokkurs konar ofbeldi og hjúkrunarfræðingurinn viðurkenndi að þvagblaðra Rappe hefði vel getað farið svona vegna innri meins og áverkar á henni hafi getað verið eftir mjög þunga skartgripi sem hún hefði verið með á sér.

Arbuckle bar sjálfur vitni og sagðist aðeins hafa, ásamt fleirum, hlúð að Rappe sem hafi verið illa haldin og bæði kastað upp og fengið krampaköst. Hann og aðrir viðstaddir hafi í fyrstu talið um að ræða áhrif af of mikilli áfengisdrykkju. Arbuckle vísaði fullyrðingum saksóknara, um að hann hefði vitað að Rappe þjáðist af sjúkdómi og nýtt sér það til að hylma yfir nauðgunina, alfarið á bug. Hann sagðist vissulega hafa þekkt Rappe í nokkur ár en ekki haft neina vitneskju um að hún væri haldin einhvers konar sjúkdómi.

Kviðdómurinn var ekki einhuga um hverju ætti að trúa og komst ekki að niðurstöðu. Því voru réttarhöldin ómerkt og efnt var til nýrra.

Taka tvö

Sagt er að hluti kviðdómsins hafi talið Arbuckle sekan en komist að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið hafið yfir skynsamlegan vafa. Raunar vildu 10 af 12 kviðdómendum sýkna hann en 2 voru harðir á því að hann væri sekur.

Önnur réttarhöld hófust í janúar 1922. Í þeim kom meðal annars fram vitnisburður um að saksóknarinn, Matthew Brady, hefði neytt viðkomandi vitni til að ljúga í fyrstu réttarhöldunum. Hins vegar bar öryggisvörður í kvikmyndaveri vitni um að Arbuckle hefði einu sinni reynt að múta honum til að láta hann hafa lykil að búningsherbergi Rappe en hann hefði neitað að verða við því. Lögmaður Arbuckle afhjúpaði hins vegar að mannsins biði ákæra um kynferðisbrot gegn barni og hann hefði samið við Brady um að bera vitni í þessu máli til að fá vægari dóm. Fingraförin úr fyrstu réttarhöldunum voru  endanlega afskrifuð sem trúðverðug sönnunargögn en í þetta sinn var minnst á að Rappe hafi átt í vandræðum með áfengi og að hún hefði ekki verið við eina fjölina felld í ástarmálum.

Verjendur Arbuckle voru svi vissir um að hann yrði sýknaður í þetta sinn að þeir létu hann ekki bera vitni en það túlkuðu sumir sem merki um sekt og aftur náði kviðdómurinn ekki að komast að niðurstöðu. Í þetta sinn vildu 10 sakfella en 2 sýkna.

Allt þegar þrennt er

Saksóknari kaus að halda ákærunni gegn Arbuckle til streitu og því var efnt til þriðju réttarhaldanna í mars 1922. Þegar þarna var komið við sögu var orðstír hans í rúst og dagblöð voru full af æsifréttum um kynsvall og alls kyns öfuguggahátt í Hollywood.

Í þetta sinn var enn frekar af lögmönnum Arbuckle fjallað um sjúkrasögu Rappe og óregluna í lífi hennar. Þeir færðu rök fyrir því Bambina Maude Delmont sem ásakaði hann upphaflega hefði engan trúðverðugleika. Arbuckle bar í þetta sinn sjálfur vitni og hélt eins og áður fast við að hann væri saklaus.

Lítið bit var eftir í maáltilbúnaði saksóknara og það tók kviðdóm aðeins sex mínútur að komast að niðurstöðu um að sýkna Arbuckle. Raunar fóru fimm af þeim mínútum í að skrifa sérstakt bréf þar sem kviðdómendur skrifuðu að augljóst væri að engar sannanir væru fyrir því að Arbuckle hefði gert nokkuð af sér í garð Rappe. Í bréfinu stóð að Arbuckle hefði orðið fyrir miklu óréttlæti og vonast væri til að bandaríska þjóðin myndi meðtaka það.

Aldrei eins

Eins og áður segir hefur aldrei verið skorið úr um það endanlega hvers vegna svona fór fyrir hinni ungu leikkonu Virginia Rappe. Engar sannanir virðast hafa verið fyrir því að Arbuckle hafi beitt hana nokkurs konar ofbeldi en eins og áður segir hefur verið vísað til þrálátra þvagfærasýkinga og drykkju ofan í það sem mögulegrar skýringar.

Hverju sem því líður þá er staðreyndin sú að Rappe lést langt fyrir aldur fram og ekkert varð þar með af því að hún yrði stjórstjarna í Hollywood.

Roscoe „Fatty“ Arbuckle hafði verið sýknaður en orðstír hans var í molum þrátt fyrir það og hann náði aldrei sömu stöðu í kvikmyndaheiminum og hann hafði áður en hann fór í partýið örlagaríka. Hann átti erfitt með að fá verkefni en á endanum sneri hann sér meira að leikstjórn en þá þurfti hann að nota dulnefni opinberlega svo áhorfendur áttuðu sig ekki á því að leikstjórinn væri hann.

Þegar 11 ár voru liðin frá sýknudómnum, árið 1933, virtist allt loksins vera á uppleið hjá Arbuckle. Hann átti auðveldara með að fá hlutverk undir eigin nafni og skrifaði þetta sumar undir samning um að leika aðalhlutverk í kvikmynd á vegum kvikmyndaversins Warner Brothers. Hann fagnaði ákaft með vinum sínum um að kvöldi þessa dags en um nóttina fékk hann hjartaáfall í svefni og lést aðeins 46 ára að aldri.

Sögulegt

Partýið á þessu septemberkvöldi 1921 á hótelinu í San Francisco batt enda á eitt líf og breytti öðru til frambúðar.

Mál Roscoe „Fatty“ Arbuckle og Virginia Rappe var um margt sögulegt. Kvikmyndaiðnaðurinn var enn tiltölulega nýr og menning fræðgðarmenna og stjarna þess iðnaðar var nokkurn veginn ný tilkomin. Æsifréttamennska hafði tíðkast áður en á þessum árum fóru að festa sig fyrst í sessi fyrir alvöru fjölmiðlar sem gerðu að miklu leyti út á fréttaflutning af því tagi. Þetta var eitt af fyrstu sakamálunum þar sem stórstjörnur, frægðarmenni og fjölmiðlafár settu svo mikinn svip á allt málið að vitneskja um það og áhugi fyrir því breiddist út um öll Bandaríkin og raunar víðar. Eins og margir án efa vita þá var þetta mál langt frá því það síðasta sem lýsa mátti með þessum hætti.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Kæfði aldraðan og sárþjáðan föður sinn – Nú er dómur fallinn

Kæfði aldraðan og sárþjáðan föður sinn – Nú er dómur fallinn
Pressan
Í gær

Handtekin og látin dúsa í fangaklefa eftir að hafa tekið iPad af dætrum sínum

Handtekin og látin dúsa í fangaklefa eftir að hafa tekið iPad af dætrum sínum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Notar þú tyggjó? Eitt stykki getur innihaldið 250.000 stykki af örplasti

Notar þú tyggjó? Eitt stykki getur innihaldið 250.000 stykki af örplasti
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ógnaði unglingum með byssu og hótaði að „skjóta hausinn af þeim“ – Var ósátt við það sem þeir gerðu í garðinum hennar

Ógnaði unglingum með byssu og hótaði að „skjóta hausinn af þeim“ – Var ósátt við það sem þeir gerðu í garðinum hennar
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Þegar þú situr fyrir framan skjá allan daginn þá verður þú kona. Rannsóknir hafa sýnt fram á þetta“

„Þegar þú situr fyrir framan skjá allan daginn þá verður þú kona. Rannsóknir hafa sýnt fram á þetta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Eiginkona þekkts rokkara skotin af lögreglu eftir æsilega atburðarás

Eiginkona þekkts rokkara skotin af lögreglu eftir æsilega atburðarás
Pressan
Fyrir 3 dögum

Börn lögð inn á sjúkrahús vegna eitrunar – „Mislingakúr“ bandaríska heilbrigðisráðherrans um að kenna

Börn lögð inn á sjúkrahús vegna eitrunar – „Mislingakúr“ bandaríska heilbrigðisráðherrans um að kenna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trúðslæti Trump – Skiptir um skoðun og tilkynnir 90 daga pásu á refsitollunum

Trúðslæti Trump – Skiptir um skoðun og tilkynnir 90 daga pásu á refsitollunum