Samkvæmt lista Forbes er Gates í 13. sæti yfir ríkustu jarðarbúana. Eru eignir hans metnar á um 108 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega 14.200 milljarða króna á núverandi gengi.
Gates og fyrrverandi eiginkona hans, Melinda, eiga þrjú börn og þó þau fái aðeins brot af auðæfum föður síns ættu þau ekki að verða á flæðiskeri stödd fjárhagslega.
„Í mínu tilviki fengu börnin mín gott uppeldi og góða menntun. Þau munu fá minna en 1% af heildarauðæfum mínum því ég komst að því að ég væri ekki að gera þeim neinn greiða [með öðru],“ sagði hann í viðtali í hlaðvarpsþætti Raj Shamani á dögunum.
Bætti hann við að hann gerði enga kröfu um að eitthvert þeirra tæki við af honum hjá Microsoft.
Þrátt fyrir þetta er talið að börnin muni fá sem nemur um einum milljarði Bandaríkjadala í arf, eða um 130 milljarða króna. Börnin eru sem fyrr segir þrjú og eru þau í dag 28, 25 og 22 ára.
Gates hefur áður lýst því yfir að nánast öll auðæfi hans muni renna til góðgerðarmála, en meginhlutinn fer í gegnum sjóðinn Bill & Melinda Gates Foundation.