Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að starfa við björgunarstörf. Stundum fá slökkviliðsmenn og björgunarsveitir yfir sig fúkyrði fremur en þakkir. Þetta átti sér stað í Gautaborg á dögunum þegar viðbragðsaðilar voru kallaðir út vegna páfagauksins Apollo sem var fastur uppi í tré.
Göteborgs-Posten greinir frá því að á miðvikudaginn hafi slökkviliðsmaður að nafni Denny Mausch verið að sinna erindum með kollegum sínum þegar hann tók eftir páfagauk sem sat í háu tré. Páfagaukurinn virtist vera sjálfheldur.
Það er ekki í verkahring slökkviliðsins að bjarga dýrum sem eru föst, þótt slíku sé gjarnan haldið fram í sjónvarpsþáttum og myndasögum, en Denny segir að þeir reyni þó að hjálpa þegar þeir geta.
Slökkviliðið græjaði sig því í gang og ætlaði að bjarga páfagauknum. En páfagaukurinn tók þessu ekki vel.
„Ég heyrði frá vinnufélögum mínum að páfagaukurinn hefði gargað á þá að „fokka sér“.“
Björgunin reyndist ekki auðvelt verk og það tók fleiri klukkustundir að sannfæra páfagaukinn um að leyfa þeim að bjarga sér.
Eigandi páfagauksins mætti á vettvang og tilkynnti slökkviliðinu að páfagaukar væru myrkfælnir og því hefði Apollo ekki verið á því að yfirgefa greinina sem hann hafði komið sér fyrir á. Eigandinn var þó með hugmynd. Hann var með sígarettupakka sem gerði gæfumuninn.
„Ég heyrði að þeim hefði tekist að plata hann niður með sígarettum, ég veit ekki hvort það er rétt en þetta er það sem ég heyrði,“ sagði Denny.
Orðljóti fuglinn komst aftur til jarðar heill á húfi, en þó nokkuð pirraður út í eigandann sem hann beit nokkrum sinnum.
Aftonbladet fjallaði líka um málið.