Kvöld eitt í október 2022 ákvað hún að binda enda á þjáningar hans. Hún teygði sig í kodda sem hún þrýsti upp að andliti hans og hélt í dágóða stund, eða þar til hann hætti að hreyfa sig.
Dómur í þessu óvenjulega máli féll í Bretlandi í dag og þarf Lisa, sem er 55 ára, ekki að fara í fangelsi vegna málsins eftir að hafa játað á sig manndráp. Var hún dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi vegna málsins og féllst dómari að hluta til á þær skýringar hennar að mannúðarsjónarmið hefðu legið að baki ákvörðun hennar.
Í frétt Sky News kemur fram að faðir hennar, Barrie, hafi verið alvarlega veikur vegna krabbameins og var búist við því að hann ætti skammt eftir ólifað. Fyrir dómi kom fram að erfitt hafi reynst að verkjastilla hann og hann oftar en ekki þjáðst óhóflega.
Læknir var kallaður að heimili hans í Banbury í Oxfordshire eftir andlát hans og taldi sá að Barrie hefði dáið af náttúrulegum orsökum.
Lisa er sögð hafa játað fyrir nágranna föður síns – vinkonu föður hennar – að hún hefði kæft hann þetta sama kvöld. Bað hún nágrannakonuna um að segja engum. Daginn eftir sagði hún einnig framkvæmdastjóra dvalarheimilisins, þar sem faðir hennar bjó, hvað hún hafði gert. Sá hafði samband við lögreglu sem hóf rannsókn málsins.
Við ákvörðun refsingar sagði dómarinn í málinu að samband Lisu og föður hennar hefði augljóslega verið gott og afar náið í gegnum árin. Lisa hafi vissulega viljað binda endi á þjáningar hans og þess vegna hafi hún gripið til þessa ráðs. Að sama skapi benti hann á að lögum samkvæmt sé bannað að deyða aðra manneskju – og breytir þá engu hverjar kringumstæðurnar eru.