Það var í byrjun júní 1984 sem mjólkurpóstur og 10 ára sonur hans fundu illa farið lík hinnar 17 ára Melanie Road í Bath á Englandi. Melanie hafði verið úti að skemmta sér með vinum sínum um nóttina og hafði síðan ætlað að ganga heim en það var stutt leið.
En hún komst aldrei heim. Hampton réðst á hana og nauðgaði hrottalega og stakk 26 sinnum.
Lögreglan gerði mikla leit að morðingjanum og vonaðist til að hann myndi nást fljótlega en það liðu 31 ár þar til hann náðist.
Blóðslóð lá frá morðvettvanginum og sýndi blóðrannsókn að morðinginn væri í sama blóðflokki og 3% þjóðarinnar. 71 blóð- og sæðissýni voru tekin á vettvangi og af fatnaði og líkama Melanie.
94 karlar voru handteknir og síðan voru þeir einn af öðrum útilokaðir af listanum yfir hina grunuðu. Að lokum hafði lögreglan enga slóð til að fylgja og mánuðir urðu að árum. Morðingi Melanie virtist ætla að komast upp með níðingsverkið.
DNA-greining var ekki komin til sögunnar á þessum tíma en lögreglan geymdi lífsýnin og þegar DNA-gagnagrunnur, á landsvísu, var settur á laggirnar 1995, 11 árum eftir morðið, voru upplýsingar um morðingjann settar inn í hann.
2009 var fjallað um málið í vinsælum sjónvarpsþætti og almenningur beðinn um upplýsingar. 72 vísbendingar bárust en engin þeirra kom að gagni.
En svo urðu stórar vendingar 2014 þegar atburður, sem virtist algjörlega ótengdur morðinu, átti sér stað. 41 árs kona var þá handtekin í Bath í kjölfar heimilisófriðar. Samkvæmt vinnureglum lögreglunnar var tekið DNA-sýni úr konunni og það síðan skráð í gagnagrunninn.
Árið eftir var DNA-greiningin á sýninu úr morðingja Melanie keyrð í gegnum gagnagrunninn á nýjan leik og þá kom óvænt svörun. Morðinginn var skyldur konunni sem var handtekin í heimilsófriðarmálinu.
Lögreglan hafði því samband við hana. Hún sagði lögreglunni að faðir hennar, Christopher Hampton, væri málari sem hefði búið í Bath þegar Melanie var myrt.
Lögreglumenn heimsóttu hann og tóku lífsýni úr honum. Hampton, sem var orðinn 64 ára, lifði kyrrlátu lífi og var ekki á sakaskrá. Lögreglunni þótti því ólíklegt að hann tengdist málinu. Fimm vikum síðar lá niðurstaða rannsóknarinnar fyrir og sýndu að hann var morðinginn.
Hann var því handtekinn og var dæmdur í ævilangt fangelsi ári síðar. Hann getur sótt um reynslulausn árið 2038 ef honum endist aldur.