Lögreglan í Waterbury, Connecticut, BNA, hefur birt myndir úr húsi þar sem talið er að kona hafi haldið stjúpsyni sínum föngnum í 20 ár.
Maðurinn náði að flýja úr húsinu í febrúar með því að tendra þar eld með prentarapappír og handspritti. Hann segist hafa verið lokaður inni í þröngu herbergi sem var læst með lási og krossviðarplötu.
Árum saman fékk maðurinn lágmarksskammt af mat og vatni, að því er hann hefur greint lögreglu frá.
Ljóst er að myndirnar sem lögreglan birti sýna að húsið hefur verið í slæmu ásigkomulagi og löngu kominn tími á viðhald. Eldurinn sem maðurinn kveikti hefur líka sitt að segja. Myndirnar bera með sér slæma umgengni og rusl er út um allt hús.
Maðurinn segist hafa kvartað nokkrum sinnum undan meðferðinni á sér er hann var í skóla. Félagsmálayfirvöld töldu sig samt ekki hafa orðið vör við neitt grunsamlegt við rannsókn sína á heimilinu.
Sjá nánar á vef CNN.