Donald Trump Bandaríkjaforseti segist lukkulegur með tveggja vikna sókn Bandaríkjanna gegn Hútum í Jemen. Hann sendir bæði Hútum og Íran skýr skilaboð – Hættið að skjóta á bandarísk skip og við munum hætta að skjóta á ykkur – en Hútar eru sagðir njóta stuðnings yfirvalda í Íran.
Áhlaup Bandaríkjanna gegn Hútum hófst fyrr í þessum mánuði og hefur að sögn Trump gengið vonum framar. Mesta athygli hefur þó vakið að varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth og þjóðaröryggisráðgjafinn Mike Waltz, ræddu um fyrstu sóknina gegn Hútum í gegnum samskiptamiðilinn Signal, í trássi við öryggisreglur bandaríska ríkisins. Til að bæta gráu ofan á svart bauð Walz, fyrir mistök, ritstjóra miðilsins Atlantic í spjallið. Þar ræddu háttsettir embættismenn upplýsingar sem trúnaður átti að ríkja um og tóku ekki eftir blaðamanninum, ekki fyrr en hann birti nokkrum vikum síðar grein um málið.
Fox News greinir frá því að bandaríski herinn hafi ákveðið að hefja aðgerðir gegn Hútum eftir ítrekaðar hótanir og árásir þeirra gegn ísraelskum skipum. Trump skrifaði á Truth Social í gær að nú væri búið að hreinlega þurrka „Húta-hryðjuverkamennina“ út og fella marga af þeirra fremstu bardagamönnum og leiðtogum.
„Við létum sprengjurnar dynja á þeim nótt sem nýtan dag – harðar og harðar,“ sagði forsetinn sem segist sannfærður um að Hútar séu nú ekki færir um að halda árásum gegn flutningaskipum á Rauða hafinu áfram.
Trump sendi samhliða skýr skilaboð til Íran: Ef árásir Húta hætta ekki þá munu Bandaríkin beina spjótum sínum gegn Íran. „Annars erum við bara rétt að byrja, raunverulegi sársaukinn á eftir að koma bæði fyrir Húta og fyrir styrktaraðila þeirra í Íran.“
Trump hefur enn fremur varað Íran við því að halda áfram að veita hryðjuverkasamtökum hernaðarlegan stuðning og við því að halda áformum sínum um að koma sér upp kjarnorkuvopnum.
Rússar hafa varað Bandaríkin við því að ráðast gegn Íran. Árásir á íranska innviði muni hafa hörmulegar afleiðingar. Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Ryabkov, sagði við rússneska miðla í dag: „Það er hlustað á þessar hótanir og þessa úrslitakosti. Við lítum á svona aðferðir sem óviðeigandi, við fordæmum þær og teljum þetta vera tilraun Bandaríkjanna til að þvinga Íran til hlýðni.“
Trump sagði við fréttamiðla um helgina að Íran væri hollast að gera sáttmála við Bandaríkin og lofa því að hætta tilraunum með kjarnorkuvopn. „Ef þeir semja ekki þá verður sprengt, meiri sprengingar en þeir hafa nokkru sinni séð.“
Ryabkov segir þessar hótanir aðeins vera olíu á logandi eld. Afleiðingarnar gætu verið hrottalegar fyrir allan heiminn. Það þurfi að ná samkomulagi á skynsamlegum nótum. Rússland sé tilbúið að vinna með Bandaríkjunum, Íran og öllum öðrum sem hafa áhuga, að ásættanlegum sáttmála.“