Pilturinn sem um ræðir, Abdul Aziz Khan, var numinn á brott af móður sinni, Rabia Khalid, árið 2017 í kjölfar erfiðrar forræðisdeilu á milli hennar og föður Abdul.
Þann 27. nóvember 2017 átti Rabia að mæta fyrir dóm í Atlanta og stefndi allt í það að hún myndi missa forræðið yfir drengnum sem þá var sjö ára.
Þennan dag mætti hún hins vegar ekki í dómshúsið og þegar lögregla fór að svipast um eftir henni kom í ljós að hún hafði flúið með Abdul og nýjum eiginmanni sínum, Elliot Blake Bourgeois.
Mál Abduls vakti töluverða athygli á sínum tíma og var meðal annars fjallað um það í Netflix-þáttunum Unsolved Mysteries.
Leitin að drengnum stóð yfir í tæp átta ár og bar hún loks árangur í lok febrúarmánaðar þegar Rabia var handtekin.
Eigandi húss í Douglas-sýslu í Colorado hafði orðið var við grunsamlegar mannaferðir við húsið og hafði samband við lögreglu vegna gruns um yfirvofandi innbrot. Þegar lögregla kom á vettvang hitti hún fyrir Rabiu inni í húsinu en með í för var Abdul sem nú er orðinn 14 ára.
Rabia og eiginmaður hennar eru í haldi lögreglu og eiga yfir höfði sér fjölmargar ákærur.