Sky News segir að Scott, sem var frá Dunfermline í Fife í Skotlandi, hafi síðast sést á lífi þegar hann sótti ráðstefnu á JW Marriot hótelinu í Naíróbí þann 16. febrúar.
Lík hans fannst í ananaspoka sem fannst í skógi um 100 kílómetra frá Naíróbí. Talsmaður lögreglunnar sagði The Standard Newspaper að búið hefði verið að stinga augun úr Scott og að eyrun hefðu verið skorin af honum og að líklega hafi hann verið pyntaður.
Talsmaðurinn sagði að auk fyrrgreindra limlestinga þá hefðu hendur Scott verið bundnar fyrir aftan bak áður en líkinu var troðið ofan í poka með ananas.
Leigubílstjóri og þjónn eru í haldi vegna rannsóknar málsins.
Scott starfaði hjá greiðslumatsfyrirtækinu Fico og var að sögn í viðskiptaferð í Kenía.