Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert hosur sínar grænar fyrir Grænlandi. Hann segist vonast til þess að Grænland gangi inn í Bandaríkin með góðu en útilokar ekki að beita hervaldi. Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna Trump girnist Grænland. Er það til að tryggja öryggi Bandaríkjanna? Er það vegna dýrmætra jarðefna Grænlands? Eða er það til að setja mark sitt á söguna með því að auka yfirráðasvæði Bandaríkjanna til frambúðar?
Ein samsæriskenning vakti töluverða athygli á Reddit fyrir helgi. Þar deildi einn notandi sinni kenningu um Grænlandsmálið. Trump sé í eðli sínu viðskiptamaður. Hann ætli sér að taka yfir Grænland út af því hvaða þýðingu slík yfirráð geti haft eftir nokkra áratugi.
„Gleymið ekki yfirburðarstöðu hvað varðar flutningaleiðir. Þess vegna vill hann líka Panamaskurðinn. Fyrir árið 2050 verður norðurskautið algjörlega siglingafært árið um kring,“ segir Reddit-notandinn og bendir á að með þessari breytingu eigi mikilvægi Panamaskurðarins eftir að minnka þar sem ný flutningaleið verður komin til sögunnar. Þau lönd sem eiga landamæri við þessa norðurskautsleið eru Bandaríkin í gegnum Alaska og svo Kanada, Rússland og loks Danmörk í gegnum Grænland. Stysta leiðin verður í gegnum Beringsundið sem Bandaríkin deila nú með Rússlandi, í gegnum landhelgi Kanada og loks í gegnum Baffinflóa sem Kanada og Grænland deila.
Með því að sölsa undir sig Kanada, Grænland og svo Panamaskurðinn væru Bandaríkin komin í yfirburðastöðu hvað alþjóðlega flutninga varðar. Trump hafi komið því skýrt á framfæri að hann vilji að sín verði minnst sem eins áhrifamesta forseta Bandaríkjanna. Þar með verði hans arfleifð stórtæk landtaka sem tryggi Bandaríkjunum stórgróða í framtíðinni. Hann sé líklega hvattur áfram í þessum fyrirtæklunum af hagsmunaaðilum innan flutningaiðnaðarins. Hann ætli að tryggja Bandaríkjunum eins konar einokunarstöðu í alþjóðlegum flutningum. Allt tal um öryggismál sé fyrirsláttur.