Lyudmila Pavlochenko virtist eflaust í augum einhverra ekki vera neitt sérstakt hörkutól. Hún var einstæð 24 ára gömul móðir og vann í verksmiðju í Úkraínu, samhliða háskólanámi, þegar landið var eitt af lýðveldum Sovétríkjanna. Þetta ár, 1941, neyddi Þýskaland Sovétríkin til þátttöku í síðari heimsstyrjöldinni með því að gera innrás í landið um sumarið. Lyudmila Pavlochenko vildi ólm þjóna landi sínu og taka þátt í átökunum. Yfirmenn Rauða hersins voru ekkert sérstaklega hrifnir af því að leyfa konu að gegna herþjónustu en sáu snarlega að sér þegar í ljós kom að þarna var á ferðinni afburða skytta. Einstæða móðirin varð ein af afkastamestum leyniskyttum allra tíma.
Í stríðinu varð hún alls 309 hermönnum óvinarins að bana. Þegar Þjóðverjar hótuðu að tæta hana í 309 mola varð hún alls ekki hrædd heldur hæst ánægð með að þýsk hermálayfirvöld væru svona vel meðvituð um hversu marga hún hefði drepið.
Engin kvenkyns leyniskytta hefur drepið eins marga óvinahermenn í sögunni og ef karlar eru teknir með í reikninginn er Pavlochenko meðal þeirra leyniskytta sem flest dráp eiga að baki.
Hún fæddist 1916 en þegar hún var 14 ára fluttist fjölskyldan til Kyiv sem eins og flestir ættu að vita er í dag höfuðborg Úkraínu en tilheyrði þá Sovétríkjunum. Pavlochenko lýsti sjálfri sér sem „strákastelpu“. Á unglingsárunum skráði hún sig á námskeið í skotfimi og fékk þar sérstaka viðurkenningu fyrir árangur sinn.
Lyudmila Pavlochenko var alla tíð harðákveðin í að láta það ekki hefta sig á nokkurn hátt að hún væri kona og hún fór raunar ekkert í grafgötur með að konur ættu að hafa sömu tækifæri og karlar og lagði sig alla fram við að sanna að hún hefði í fullu tré við þá.
Hún æfði sig þess vegna mikið í skotfimi til að sýna að hún gæti skotið alveg jafn vel af byssu þrátt fyrir að vera kvenkyns.
Hún giftist þegar hún var aðeins 16 ára og eignaðist barn en flutti með barnið til foreldra sinna þegar hjónbandið fór út um þúfur.
Hún fór að vinna í verksmiðju og var samhliða í sagnfræðinámi. Þegar kom fram á sumarið 1941 réðist Þýskaland inn í Sovétríkin.
Pavlochenko bauð sig þegar fram til herþjónustu. Henni var vísað frá þar sem hún væri kona og var ráðlagt að bjóða sig fram til að annast og hjúkra særðum hermönnum. Það vildi hún ekki og eftir að hún lagði fram vottorð um öll skotfiminámskeiðin sem hún hafði lokið, með góðum árangri, kom annað hljóð í strokkinn hjá Rauða hernum.
Pavlochenko var send í herdeild sem var full af karlmönnum sem höfðu ekki mikla trú á því að þarna væri komin góð skytta. Til að sanna færni sína var henni sagt að hún yrði að undirgangast eins konar inntökupróf með því að skjóta tvo Rúmena, sem störfuðu fyrir þýska innrásarliðið, úr 400 metra fjarlægð.
Eftir að henni tókst ætlunarverkið var hún tekin í sátt og varð ein af hópnum. Hún sagði síðar að þessir tveir sem hún drap væru ekki teknir með í heildartölunni yfir fjölda hermanna sem hún skaut þar sem aðeins hafi verið um prufu að ræða. Þar af leiðandi drap hún í raun 311 óvini en ekki 309 eins og hin opinbera tala segir til um.
Hún var því næst send beint á vígvöllinn og tók þegar til óspilltra málanna við að salla niður hermenn óvinarins. Eftir því sem drápunum fjölgaði urðu verkefnin sífellt hættulegri. Pavlochenko var til að mynda send til að heyja eins konar einvígi gegn leyniskyttum Þjóðverja sem voru allar karlkyns. Einvígin urðu alls 36 og þeim gat aðeins lokið með dauða annarrar leyniskyttunnar og Pavlochenko hafði betur í öll skiptin.
Pavlochenko framdi drápin sín 309 á vígvellinum frá sumrinu 1941 og fram á vorið 1942. Svo afkastamikil var hún að Þjóðverjar fundu á endanum út hvað hún hét. Þeir byrjuðu að ögra henni með því að kalla nafn hennar í hátölurum á vígvellinum og fóru á endanum að hóta henni öllu illa og kalla hana rússnesku tíkina frá helvíti.
Um þetta leyti fékk hún viðurnefnið Lafði Dauði í fjölmiðlum en frá nákvæmlega hverjum það kom fyrst virðist óljóst.
Hún særðist eftir að hafa fengið í sig sprengjubrot en eftir að hún hafði jafnað sig var hún ekki send aftur út í stríðið heldur til Bandaríkjanna til að afla stuðnings við það að Bandaríkin myndu ráðast inn í hertekin lönd Vestur-Evrópu til að dreifa kröftum Þjóðverja og hjálpa þannig Sovétmönnum að sigrast á þeim í austri. Þótti Lafði Dauði tilvalin í þessa sendiför þar sem hún var orðin vel þekkt víða um heim.
Í ferðinni til Bandaríkjanna kynntist hún vel forsetafrúnni Eleanor Roosevelt en þær voru báðar mjög áhugasamar um að bæta réttindi og stöðu kvenna.
Pavlochenko ræddi við blaðamenn í ferðinni en varð steinhissa á mörgum spurningum sem hún fékk. Þeir vildu vita allt um útlit hennar og gagnrýndu hvernig einkennisbúningur hennar liti út. Pavlochenko fannst það móðgandi að gert væri lítið úr einkennisbúningnum og sagði hann hafa verið þakinn blóði eftir þær orrustur sem hún hefði tekið þátt í. Hjá mörgum bandarískum blaðamönnum fékk hún þó móttökur og spurningar sem hæfðu stöðu hennar.
Pavlochenko var sæmd æðstu heiðursorðu Sovétríkjanna þegar hún sneri aftur heim. Hún sneri hins vegar aldrei aftur á vígvöllinn en þjálfaði aðrar leynsikyttur til stríðsloka. Eftir stríðið lauk hún námi í sagnfræði og hóf síðan að vinna við sagnfræðilegar rannsóknir fyrir hið opinbera.
Lyudmila Pavlochenko lést 1974, 58 ára að aldri, en hennar hefur æ síðan verið minnst sem konunnar sem varð ein færasta leynsikytta allra tíma.
Kvikmynd byggð á ævi hennar var frumsýnd árið 2015 og ber hún titilinn Orrustan um Sevastopol. Sérstaka athygli vekur að myndin var framleidd í samstarfi Rússa og Úkraínumanna en um þær mundir var ferið að bera mikið á skærum milli landanna sem urðu svo eins og allir vita á endanum að allsherjarstríði árið 2022.
Kynningarstiklu úr myndinni má sjá hér fyrir neðan.
Byggt á: