Þetta er það sem geimfararnir Suni Williams og Butch Wilmore lentu í þegar þau fóru til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í júní á síðasta ári og áttu að dvelja þar í 8 daga. Þessir 8 dagar urðu að 278 dögum.
Maður skyldi ætla að þau hefðu fengið góð laun fyrir að dvelja í geimnum svona lengi og jafnvel aukagreiðslu fyrir óþægindin.
En svo er nú ekki. Í umfjöllun People Magazine um málið er haft eftir talsmanni bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA að geimfarar fái greitt fyrir 40 klukkustunda vinnuviku, ekki sé greitt fyrir yfirvinnu eða helgarvinnu.
Williams og Wilmore fengu að vísu smávegis aukagreiðslu eða sem svarar til um 120.000 íslenskum krónum fyrir allan tímann.
Daily Mail segir að laun geimfara séu á bilinu sem svarar til um 17 milljóna íslenskra króna til 22 milljóna á ári.
Eflaust hefur fólk mismunandi skoðun á hvort þetta séu góð og sanngjörn laun og hvað þá í tilfelli Wilmore og Williams sem sátu föst í málmhólkinum, sem geimstöðin nú er, með sama útsýnið á 90 mínútna fresti.