Það skiptir svo sem ekki máli hvor týpan þú ert, því spurningin er sú sama: Er hollt að búa um rúmið á hverjum morgni?
Svarið er að það skiptir máli hvenær það er gert og hversu hratt þú gerir það.
Margir sérfræðingar, sjálfskipaðir eða útlærðir, segja að það að búa um rúmið sé fyrsta skrefið í að tryggja góðan dag þar sem þú kemur hlutunum í verk. Þú lýkur verki og finnst þú vera skipulagður. Svo er líka gott að koma heim í rúm sem líkist því ekki einna helst að stormsveipur hafi farið yfir það.
Gallinn við að búa um rúmið er að með því er verið að útbúa lúxusdvalarstað fyrir rykmaura. Ef þú býrð um rúmið um leið og þú ferð fram úr, þá pakkarðu öllum næturhitanum og rakanum frá líkamanum vel inn og það elska rykmaurar.
En ef þú dregur frá, opnar glugga og leyfir dýnunni að anda í um klukkustund, áður en þú býrð um, þá geturðu fengið andlega fullnægingu og hollara rúm þar sem miklu færri rykmaurar eru.