Það voru starfsmenn sem unnu við þrif í kjallaranum árið 2022 sem gerðu hina óhugnanlegu uppgötvun. Af verksummerkjum að dæma hafði líkið verið þarna lengi og tók það þó nokkurn tíma að bera kennsl á líkið.
Það kom svo í ljós að líkið var af Tönyu Lee Glover, sem fædd var 1. ágúst 1971, en síðast spurðist til hennar árið 2010. Tanya, sem var bæði sjón- og heyrnarskert, var ekki skráð sem týnd þar sem hún hafði misst allt samband við fjölskyldu sína. Lögregla telur að henni hafi verið ráðinn bani snemma árs 2010.
Lögregla hefur haft málið til rannsóknar undanfarin ár og var 61 árs kona færð í gæsluvarðhald í morgun, grunuð um morðið. Óvíst er hvað kom lögreglu á sporið en Tanya hafði flutt til Queensland, hvar Brisbane er höfuðborgin, árið 2006.
John Mison, fulltrúi lögreglu, vildi litlar upplýsingar veita í samtölum við ástralska fjölmiðla í morgun. Hann sagði þó að lögregla gengi út frá því að Tanya og hin grunaða hafi verið vinir.
Konan hefur einnig verið ákærð fyrir fjársvik en Mison vildi ekki veita frekari upplýsingar um hvers eðlis hin meintu svik voru.