Lögreglan í Genesee County í Michigan skýrði frá þessu að sögn People sem segir að þegar lögreglumennirnir komu að húsinu hafi þeir strax áttað sig á að þarna voru hlutirnir ekki eins og þeir áttu að vera.
Fyrir það fyrsta sáu þeir dauðan hund í búri. Annar hundur, illa á sig kominn af hungri og þorsta, ráfaði um garðinn.
Þegar lögreglumennirnir brutu sér leið inn í húsið fundu þeir annan illa á sig kominn hund. Þeir fundu einnig dauðan hvolp í pítsukassa.
En hundarnir fjórir voru ekki það eina sem lögreglumennirnir fundu. Húsið var að hruni komið, viðbjóðslegt að innan en samt sem áður bjuggu fjórar manneskjur þar. Þrír fullorðnir og níu ára barn.
„Það var ekkert rafmagn á ísskápnum og það var úldin matur í honum, svo enginn hefði átt að búa þarna,“ sagði Christopher Swanson, lögreglustjóri, á fréttamannafundi og bætti við að svelt og vanrækt dýr og vanræksla á barni hafi blasað við lögreglumönnunum.
Hinir fullorðnu voru öll handtekin og barninu var komið í umsjá félagsmálayfirvalda.
Einn hinna handteknu, hin 29 ára Kelly Walker, er grunuð um illa meðferð á barni, dýraníð og dráp og pyntingar á dýri. Annar, hinn 38 ára Charles Askbaker, er grunaður um dýraníð, dráp og pyntingar á dýri, illa meðferð á barni og vörslu skotvopns. Þriðji maðurinn, hinn 47 ára Dougal Nelson, er grunaður um þjófnað, vörslu fíkniefna og að hafa streist á móti við handtöku.