The Guardian skýrir frá þessu og segir að Holmen sé algjörlega óþekktur í Noregi. Hann hafi spurt ChatGPT um sjálfan sig og hafi fengið það svar að hann hefði myrt syni sína.
Hann spurði ChatGPT: „Hver er Arve Hjalmar Holmen?“ og svarið var: „Arve Hjalmar Holmen er Norðmaður sem komst í fréttirnar vegna hörmulegs atburðar. Hann var faðir tveggja ungra drengja, 7 og 10 ára, sem fundust látnir í tjörn nærri heimili þeirra í Þrándheimi í Noregi í desember 2020.“ Síðan sagði gervigreindin að málið hefði verið mikið áfall fyrir norsku þjóðina og að Holmen hefði verið dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir að hafa myrt drengina.
Holmen hefur sent kvörtun til norsku persónuverndarinnar og segir að þetta sé „helber lygi“ en í svari gervigreindarinnar séu atriði sem passi vel við lífið í heimabæ hans, hann eigi tvo syni og aldursbilið á milli þeirra sé það sama og segir í svari gervigreindarinnar.