Lík leikarans Gene Hackham og eiginkonu hans Betsy Arakawa eru enn í líkhúsi í Nýju Mexíkó.
TMZ leitaði svara hjá embætti landlæknis þar í landi og fékk þær upplýsingar að listi yfir lík sem ekki hafa verið sótt og færð til greftunar væri uppfærður alla mánudaga. Hjónin voru á listanum þann 24. mars og eru enn í líkhúsinu. Yfirvöld staðfestu að þetta væri ekki óvenjulegt, og TMZ segist ekki hafa upplýsingar um af hverju hjónin séu enn í líkhúsinu, mögulega séu ættingjar enn að skipuleggja jarðarförina.
Hjónin fundust látin á heimili þeirra 26. febrúar síðastliðinn ásamt hundinum þeirra. Gene og Arakawa höfðu verið gift frá árinu 1991. Höfðu þau verið látin í nokkurn tíma þegar þau fundust
Arakawa, sem var 65 ára, lést vegna lungnaheilkennis af völdum hantaveirunnar sem getur borist í mannfólk úr nagdýrum eins og til dæmis músum, en sjúkdómurinn er sagður sjaldgæfur. Arakawa lést á undan Hackman, þann 11. febrúar og líklegt er talið að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því vegna ástands síns. Talið er líklegt að Hackman hafi látist viku síðar eftir að hafa dottið en erfitt er að komast að nákvæmri niðurstöðu um það.
Hackman var 95 ára og lést af völdum háþrýstings og tilheyrandi hjarta- og æðasjúkdóms en það mun hafa gert illt verra að hann þjáðist einnig af Alzheimer-sjúkdómnum. Við krufningu fundust engin merki um áverka en skýr merki um að Hackman hafi fengið fleiri en eitt hjartaáfall og hjarta hans var illa farið.
Hjónin áttu engin börn saman og Arakawa engin. Hackman átti þrjú börn með fyrrum eiginkonu sinni Faye Maltese, Christopher, 65 ára, Elizabeth, 63 ára, og Leslie, 58 ára. Hackman hefur greint frá því í viðtölum að hann hafi lítið komið að uppeldi barna sinna, sökum þess að hann var einatt í burtu við kvikmyndatökur. Arakawa var erfingi að öllum eignum Hackman samkvæmt erfðaskrá frá 1995 og Hackman sömuleiðis að hennar. Í erfðskránni var kveðið á um að ef þau bæði dæju með innan við 90 daga millibili, myndu allar eigur Arakawa, þar með arfurinn frá Hackman, renna til góðgerðarmála.
Að minnsta kosti eitt barna Hackman, sonurinn Christopher hefur ráðið lögmann sem sérhæfir sig í erfðarétti til að freissta þess að fá erfðaskránni hnekkt.
Þeirri spurningu er þó enn ósvarað af hverju systkinin hafa ekki sótt lík föður síns og eiginkonu hans og komið þeim til hinstu hvílu.