Ef þið viljið vita hvað konunni ykkar líkar við í svefnherberginu, þá er auðvitað einfaldast að spyrja hana – eitt það mikilvægasta varðandi heilbrigt kynlíf er að tala saman um hvað þið viljið.
En fyrir ykkur sem viljið helst sleppa við slík samtöl eða þorið einfaldlega ekki að taka þau þá er auðvitað til fjöldinn allur af sérfræðingum sem bjóða upp á hin ýmsu ráð varðandi samskipti kynjanna og kynlífið. Það er ekkert annað að gera en vona að þessi ráð þeirra eigi einmitt við þá stöðu sem þið eruð í.
Einn þessara sérfræðinga er Jana Hocking, sem stýrir hlaðvarpinu „Jana with a J“ sem sagði í samtali við news.com.au að eitt af því sem karlar gera kolrangt í svefnherberginu, og sé eitt stórt „turnoff“, sé að þeir haldi að þeir þurfi að halda út óralengi.
Hún sagði að ef hún megi velja á milli kynlífs sem varir í hálfa mínútu eða eina klukkustund, þá myndi hún, og það sama eigi við um vinkonur hennar, frekar velja styttri kostinn og það sé „stærsta hrós sögunnar“.
Rétt er að hafa í huga að hvorki hálf mínúta né klukkustund er ákjósanlegur tími fyrir kynlíf. Þá er átt við tímann sem líður frá því að getnaðarlimur, eða annað er sett inn í leggöngin, og þar til þeirri athöfn lýkur.
Rannsókn á kynlíf 500 para leiddi í ljós að karlmennirnir töldu 16 mínútur vera hinn fullkomna tíma fyrir kynlíf en sögðust um leið telja, að þeir endist í allt að níu mínútur frá innsetningu og þar til þeir hafa sáðlát en að meðaltali haldi þeir út í sex mínútur.
Þá er forleikurinn auðvitað ekki talinn með.
Hvað varðar konurnar þá leiddi önnur rannsókn, sem 4.000 konur tóku þátt í, í ljós að þær vilja að sjálfar samfarirnar vari í 25 mínútur.
Það er því ljóst að hálf mínúta er of skammur tími og klukkustund er allt of langur tími.
Hocking sagði að margir karlar hafi líklega fengið slæmar hugmyndir hvað þetta varðar úr „fáránlegum klámmyndum þar sem samfarirnar eru endalausar“ og þess vegna haldi þeir að það sé mikilvægt að halda út mjög lengi.
Hún sagði að konur vilji ekki eyða „mörgum klukkustundum í rúminu að gera sama hlutinn aftur og aftur“ sem sé einfaldlega leiðinlegt.