Þetta hefur NBC News eftir fjölda sérfræðinga. Einn þeirra er Katherine Wells, forstjóri lýðheilsustofnunarinnar í Lubbock í Texas.
Það er einmitt í Texas sem mislingafaraldurinn hófst í janúar. Sjúkrahúsin í Lubbock hafa annast flesta þeirra sem hafa smitast.
Samkvæmt nýjustu tölum þá var búið að staðfesta 355 smit á föstudaginn og hafði faraldurinn borist til tveggja annarra ríkja. Í Nýju-Mexíkó var búið að staðfesa 42 tilfelli og í Oklahóma var búið að staðfesta 4 tilfelli.
Tveir hafa látist fram að þessu, sex ára stúlka og fullorðinn einstaklingur.
Engin teikn eru á lofti um að faraldurinn sé í rénun. „Ég hef áhyggjur af að þetta verði enn verra,“ sagði Wells.
Ástæðan er meðal annars að margir leita ekki til læknis eftir að hafa smitast og að margir á smitsvæðunum eru ekki bólusettir.
Næstum allir hinna smituðu eru börn og unglingar sem hafa ekki verið bólusett gegn mislingum að sögn NBC News.