Í þjóðfélagslegri umræðu víðast hvar í hinum vestræna heimi heyrast oft þær raddir að áður fyrr hafi allir helstu afreksmenn og hetjur samfélagsins verið hvítir, gagnkynhneigðir og karlkyns. Rannsóknir fræðimanna hafa þó sýnt fram á að sagan er ekki svona einföld. Kona nokkur sem upprunin var frá Egyptalandi og var líklega dökk á hörund auk þess að eiga sér eilítið skrautlega fortíð að baki í ástarmálum varð til að mynda vel þekkt og öðlaðist stöðu söguhetju í hinu hvíta Englandi á 11. öld. Fræðimenn við háskólann í Cambridge hafa í rannsóknum sínum leitast við að skilja hvers vegna konan öðlaðist slíka stöðu fyrir um 1000 árum og um leið hefja hana til vegs og virðingar.
Konan hefur verið tekin í dýrlingatölu í nokkrum kirkjudeildum til að mynda grísku réttrúnaðarkirkjunni og rómversk-kaþólsku kirkjunni. Hún gengur undir nafninu Heilög María frá Egyptalandi. Það er ekki fyllilega vitað hvenær hún var uppi en það er talið hafa verið í síðfornöld eða á fyrri hluta miðalda, líklega einhvern tímann á árabilinu 300-800 eftir krist.
Fjallað er um rannsóknina á Maríu á vef BBC.
Þar kemur fram að María hafi orðið að trúarlegu tákni í Englandi á 11. öld sem sé ekki síst athyglisvert í ljósi sögu hennar. Hún hafi verið dökk á hörund og hafi verið orðin nokkuð gömul þegar saga hennar var rituð. Á yngri árum hafi hún verið „lauslát“ og notið þess að stunda kynlíf en hafi loks ákveðið að segja skilið við mannlegt samfélag og lifað nakin í eyðimörkinni í 47 ár. Svo sagði að minnsta kosti sagan af Maríu þegar hún var lesin á 11. öld.
Saga Maríu var fyrst rituð á latínu en þýdd á fornensku, velsku, írsku og norrænu og urðu þýðingarnar mjög vinsælar. Alexandra Zhirnova fræðikona við Cambridge-háskóla segir að aldrei hafi verið rannsakað hvers vegna saga Maríu höfðaði svona mikið til enskra lesenda á þessum tíma. Hún segir að rannsóknin á Maríu sýni fram á að staðalímyndir um söguna, sem gangi út á að Evrópubúar á miðöldum hafi aðeins haft neikvætt viðhorf í garð kvenna og sérstaklega ef þær voru dökkar á hörund, eigi ekki við rök að styðjast. María hafi fengið stöðu dýrlings á tímum þegar kirkjan hafi verið mjög upptekin af siðum, venjum og hefðum um hvernig kynin ættu að vera og hvernig konur ættu að haga sér.
Á þessum tíma var fólk ekki tekið í dýrlingatölu að loknu ákveðnu ferli innan kirkjunnar eins og síðar varð. Kristnir tóku það einfaldlega upp hjá sjálfum sér að dýrka tilteknar manneskjur sem dýrlinga. María öðlaðist slíka stöðu ekki bara í Englandi heldur víða um Evrópu.
Zhirnova hefur fært rök fyrir því að sagan af Maríu hafi gengið gegn viðteknum hugmyndum þessa tíma um hvernig heilagar konur ættu að vera og um að konur ættu að hlýða kirkjunni og fylgja reglum um hvernig þær ættu að haga kynlífi sínu.
Vísar Zhirnova til þess að í sögunni komi María vitinu fyrir munk nokkurn sem leyfi sér í fyrstu að gagnrýna hana eftir að hafa hitt hana í eyðimörkinni þar sem hún hafi lifað nakin. Í sögunni nái hún að sannfæra munkinn um að hann skilji ekki hvað það sé að vera sannlega kristinn. Þrátt fyrir hennar fortíð í ástarmálum líti munkurinn upp til hennar. Í sögunni sé Maríu hampað sem fordæmi um hvernig góð kristin manneskja eigi að vera. Hún hafi hins vegar verið ólík flestum kvenkyns dýrlingum á þessum tíma sem hafi verið hreinar meyjar og teknar í dýrlingatölu eftir að hafa verið ofsóttar fyrir að velja að vera skírlífar og helga sig guði.
Í sögunni af Maríu er hún sögð hafa verið dökk á hörund en Zhirnova segir ekki ljóst hvort María hafi verið í dag það sem er kallað svört eða hversu dökk húð hennar hafi yfirhöfuð verið.
Á miðöldum voru hins vegar skilgreiningar nútímans á mismunandi húðlit fólks í tengslum við mismunandi kynþætti ekki komnar til sögunnar. Fólk með dökkt hörund var einfaldlega talið vera svona á litinn vegna áhrifa sólarinnar.
Irina Dumitrescu prófessor í miðaldafræðum við háskólann í Bonn í Þýskalandi segir líklegt að lýsingar á fortíð Maríu í ástarmálum og ánægju af kynlífi á yngri árum hafi átt þátt í hversu vinsæl hún varð í Englandi 11. aldar. Hún telur einnig líklegt að vinsældir sögunnar hafi stafað af því að sagan hafi sannfært fólk um að guð elskaði líka þau sem væru ekki fullkomin.
Dumitrescu segir líklegt að kristnum lesendum á 11.öld sem hafi flestir lifað mjög reglubundnu lífi hafi eflaust þótt áhugavert og spennandi að lesa um konu sem hafi flakkað nakin um eyðimörkina og verið þannig gjörólík viðteknum hugmyndum um hvernig konur ættu að vera, en samt verið elskuð af guði.
Rannsókn Zhirnova bendir til að þetta hafi verið það sem helst hafi stuðlað að vinsældum Maríu í Englandi á 11. öld en valdabarátta innan kirkjunnar í landinu á þessum tíma hafi mögulega einnig haft áhrif á að sagan var þýdd úr latínu og henni dreift og tilgangurinn hafi verið að stöðva framgang hugmynda sem gengu út á að aðskilja konur og karla í klaustrum og takmarka möguleika kvenna innan kirkjunnar.
Dumitrescu segir að á þessum tíma hafi sögur um kvenkyns dýrlinga oftast verið tengdar við hvítt, hörund, æsku og fegurð en ekki dökkt hörund og elli eins og raunin hafi verið með Heilaga Maríu. Það hafi aukið á vinsældir hennar hversu á skjön hún hafi verið við hugmyndir um hvernig heilagar konur ættu að vera.
Alexandra Zhirnova segist vona að rannsókn hennar á Heilagri Maríu muni skapa mótvægi við hugmyndir um sögu Englands, á miðöldum, sem hægri öfgamenn hafi haldið á lofti. Vinsældir Maríu á þessum tíma sýni fram á að, gagnstætt því sem öfgahægrið haldi fram, Englendingar þessa tíma hafi svo sannarlega verið tilbúnir til að virða og lofa manneskju sem var ekki hvít á hörund og það sé einföldun að halda því fram að hugmyndir um yfirburði hvíta kynstofnsins hafi verið fullkomlega allsráðandi í Englandi miðalda.
Umfjöllun BBC um rannsókina á Heilagri Maríu má nálgast í heild sinni hér.