New York Post greinir frá þessu.
Atvikið átti sér stað í Warren Township, úthverfi Indianapolis, þann 6. mars síðastliðinn og náðist atvikið á myndband sem dreifðist um netheima eins og eldur í sinu.
Á myndbandsupptökunni heyrist þegar bílstjóri skólarútunnar segir Lateu að foreldrar séu ekki leyfðir um borð í rútunni. Á það var ekki hlustað og leið ekki á löngu þar til dóttir hennar og sonur réðust að drengnum á meðan Latea hvatti þau áfram.
„Buffaðu hann! Buffaðu hann!,“ heyrist Latea segja við börn sín áður en hún sjálf lætur höggin dynja á drengnum sem átti sér einskis ills von. Þá höfðu þremenningarnir í hótunum við önnur börn í rútunni sem skiptu sér af árásinni.
Drengurinn var fluttur á slysadeild eftir árásina og reyndist hann vera nefbrotinn og með slæmt glóðarauga. Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði Latea að skólayfirvöld hefðu lengi vitað af eineltinu en ekki gert neitt til að stöðva það. Daginn áður en hún ruddist um borð í rútuna hefði drengurinn slegið son hennar.
Lögregla ræddi einnig við fórnarlambið eftir árásina og sagði hann aðra sögu en Hentz og að sonur hennar væri ekki jafn saklaus og hún léti í veðri vaka. Hvað sem því líður hefur móðirin verið ákærð fyrir ofbeldið og gæti hún átt fangelsisdóm yfir höfði sér.