Það er auðvitað vel þekkt að áfengi getur verið skaðlegt fyrir heilsuna en niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að það geti verið ákveðinn heilsufarslegur ávinningur af því að drekka áfengi í miklu hófi.
TV2 segir að japanskir vísindamenn hafi rannsakað heilsufarsgögn 57.000 manns en þau náðu yfir tíu ára tímabil.
Rannsóknin leiddi í ljós að magn hins slæma kólesteróls jókst hjá þeim sem hættu að drekka áfengi.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu JAMA Network Open.
Einnig kom í ljós að þeir sem byrja að drekka áfengi, geta upplifað að magn kólesteróls batni.
„Ég vil ekki segja að það sé hollt að fá sér vínglas daglega en það er heldur ekki öruggt að það sé bara óhollt,“ sagði Jørg Mørland, prófessor við Oslóarháskóla, í samtali við TV2.
Greinarmunur er gerður á kólesteróli. Það er „góða“ kólesterólið HDL og hið „slæma“, LDL. Mørland sagði að fyrri rannsóknir bendi til að áfengisneysla auki magn „góða“ kólesterólsins og minnki magn þess „slæma“.
Hann sagðist vera sammála japönsku vísindamönnunum um að „hæfileg áfengisneysla tengist“ lægri dánartíðni af völdum sumra hjarta- og æðasjúkdóma.
Hann vill þó ekki ganga svo langt að segja ráðleggja fólki að byrja að drekka áfengi út af kólesterólinu.