fbpx
Föstudagur 21.mars 2025
Pressan

Rússar dansa af gleði yfir símtali Trump og Pútíns og segja Rússland nú loks hafa sigrað kalda stríðið

Pressan
Fimmtudaginn 20. mars 2025 15:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gestir rússneska ríkissjónvarpsins áttu erfitt með að leyna gleði sinni á þriðjudagskvöldið í pólitískum spjallþætti Vladimirs Solovyov. Þingmaðurinn Andrey Lugovoy, sem situr í Ríkisdúmunni, sem er neðri deild rússneska þingsins, segir að eftir símtal Donald Trump Bandaríkjaforseta og Vladimir Pútíns Rússlandsforseta sé ljóst að Rússar hafi loks sigrað kalda stríðið.

„Óháð því hvað gerist í nánustu framtíð get ég fullyrt að við, Rússar, höfum unnið endurkomusigur eftir óheppilega útkomu kalda stríðsins sem varð til þess að Sovétríkin liðuðust í sundur,“ sagði Lugovoy, kátur með Trump, sem hafi í símtalinu sýnt að hann sér Pútín sem jafningja og langar til að draga úr efnahagslegri einangrun Rússlands með því að styrkja tengsl landanna tveggja.

„Rúmum þrjátíu árum síðar eru þeir nú farnir að taka tillit til okkar hagsmuna. Þetta er bein afleiðing þeirrar atburðarásar sem við höfum verið að ræða undanfarin þrjú ár,“ bætti þingmaðurinn við og vísaði í Úkraínustríðið.

Stjórnmálafræðingurinn Dmitry Kulikov segir að í símtali forsetanna hafi Pútín náð að fræða Trump um aðdraganda og tilefni stríðsins og komið honum í skilning um að það væri ekki til nein einföld lausn. Eins hafi Pútín hafnað hugmynd um 30 daga vopnahlé sem mögulegum aðdraganda stríðsloka. Sérfræðingar rússneska ríkissjónvarpsins hafa lengi spáð því að Pútín sé mótfallinn vopnahléi. Slíkt væri aðeins til þess fallið að draga átökin frekar á langinn. Kulikov segir að hugmynd Trump um vopnahlé gangi ekki upp. „Ekki því við erum svo illgjörn heldur því við vitum að þetta yrði bara öngstræti sem kemur ekki til með að leiða til friðar.“

Rússar muni ekki semja um frið fyrr en þeir hafi náð einhverjum markmiða sinna. Kulikov telur eins að kalda stríðinu hafi í raun aldrei lokið heldur hafi Rússar átt í átökum við Bandaríkin í um 80 ár.

Þáttastjórnandinn, Vladimir Solovyov, hæddist að hugmyndum um skilyrðislaust vopnahlé. Hann vildi heldur koma með enn fleiri skilyrði heldur en Pútín hefur sett. „Samþykkið okkar skilyrði og þá verða engar frekari hernaðaraðgerðir. Að því sögðu, skilið okkur Berlín, skilið okkur Austur-Þýskalandi. Ég verð þó að taka fram að stemningin er góð eftir þetta símtal.“

Pútín sagði í símtalinu að hann muni ekki samþykkja vopnahlé nema Vesturlönd hætti hernaðaraðstoð við Úkraínu á meðan. Forsetinn ætlar ekki að gefa óvinum sínum andrými til að fylla á vopnabúrið meðan á vopnahléi stendur.

The Daily Beast greinir frá

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Notuðu nýja aðferð við aftöku í gærkvöldi

Notuðu nýja aðferð við aftöku í gærkvöldi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hvíta húsið sagt undirbúa fjölgun í herliðinu í Panama

Hvíta húsið sagt undirbúa fjölgun í herliðinu í Panama
Pressan
Fyrir 2 dögum

Varpa ljósi á hvers vegna vísindamaðurinn á Suðurskautslandinu gekk af göflunum

Varpa ljósi á hvers vegna vísindamaðurinn á Suðurskautslandinu gekk af göflunum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Saka Ísrael um að nota kynferðislegt ofbeldi sem hluta af hernaðartaktíkinni á Gasa

Saka Ísrael um að nota kynferðislegt ofbeldi sem hluta af hernaðartaktíkinni á Gasa