fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Pressan

Rannsóknarblaðamaður birti sjálfu sem átti eftir að bjarga lífi hans – Ævintýralegt ráðabrugg Rússa sem vildu hefna fyrir fréttaflutning

Pressan
Þriðjudaginn 18. mars 2025 13:30

Mynd/Getty og Twitter

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarblaðamaðurinn Christo Grozev hefur opnað sig um ævintýralegar tilraunir yfirvalda í Rússlandi til að losna við hann. Nýlega voru sex einstaklingar frá Búlgaríu sakfelldir í Bretlandi fyrir að hafa í samráði við stjórnvöld í Rússlandi gert áform um að ræna Christo og jafnvel ráða hann af dögum. Blaðamaðurinn greinir frá því á TikTok-síðu sinni að eitt það galnasta sem hann uppgötvaði í gögnum málsins, afurð áralangrar rannsóknar lögreglu, var hvernig ein saklaus sjálfa sem hann birti á Twitter bjargaði lífi hans.

„Ég komst nýlega að því að sjálfa sem ég birti á Twitter fyrir nokkrum árum gæti hafa bjargað lífi mínu. Þetta kom í ljós í afhjúpunum, afurð þriggja ára rannsóknar og dómsmáls sem lauk fyrir nokkrum dögum síðan. Málið beindist gegn sex einstaklingum sem hafa elt mig á röndum árum saman, reynt að ræna mér, reynt að komast að öllu sem hægt er að komast að um mig, mögulega reynt að ráða mig af dögum.“

Vildu sprengja hann upp

Hann birti með klippu úr frétt um málið þar sem fram kom að þessir einstaklingar eltu Christo um borð í flugvél á leiðinni frá Lundúnum til Vínar með það fyrir augunum að nema hann á brott. Christo bendir á að allir sex sakborningar voru sakfelldir en hann óraði ekki fyrir því hverju hann kæmist að þegar hann fékk að skoða gögn málsins. Meðal annars hafði þessi hópur tekið íbúð á leigu í Vínarborg. Þessi íbúð var beint á móti heimili blaðamannsins og þaðan njósnaði hópurinn um hann árum saman. Eins höfðu þau elt hann í flug, setið við hlið hans á börum og veitingastöðum og kvartað sín á milli um hversu var hann var um sig.

„Sumt af því galnasta sem ég uppgötvaði var hreinlega ótrúlegt, svo sem að þá dreymdi um að fá hryðjuverkamann frá ISIS til að ganga upp að mér úti á götu og sprengja sig í loft upp. Þannig væri hægt að drepa mig án þess að það yrði tengt við stjórnvöld í Rússlandi. Svo voru áform á borð við að Rússarnir myndu leggja hópnum til mjög fágaða latex-grímu með andliti mínu á og fá einhvern til að klæðast henni og fljúga til Rússlands, eins og í myndinni Mission Impossible. Þar átti þessi aðili að vera handtekinn fyrir framan myndavélarnar á meðan mér yrði svo rænt, færður til Sýrlands og þar pyntaður fyrir játningu og upplýsingar.

En það allra galnasta sem gerðist var að komast að því hvernig þetta tíst bjargaði lífi mínu. Ég tísti mynd af mér, á báti vinar míns, þar sem ég var að veiða. Mér hafði tekist að veiða um sex litla fiska og ég birti með myndinni svona smá glettinn texta þar sem ég sagði: Ég elska að veiða fiskana mína eins og ég veiði njósnarana mína – í einni runu.“

Þetta var saklaus texti þó að merkingin væri tvíræð. Hann var þarna að vitna í fréttir sem hann hafði birt um rússneska njósnara. Umfangsmikil rannsókn var þar að baki og uppgötvuðu blaðamenn að njósnararnir áttu það sameiginlegt að vegabréf þeirra voru gefin út í runu á tilteknu talnabili. Þetta föttuðu þó ekki rússnesku njósnararnir sem á þessari stundu stóðu við höfnina og ætluðu að nema Christo á brott þegar bátur hans kæmi í land.

„Þegar þeir sáu tístið héldu þeir að það hefði komist upp um þá, svo þeir hættu við.“

@thechristofiles How a ridiculous fishing selfie actually saved my life #spies #true #fyp #funny #crime #christogrozev ♬ original sound – The Christo Files

Eftirlýstur athafnamaður á bak við ráðabruggið

Christo hefur eins fjallað um málið í grein sem hann birti hjá Insider fyrr í þessum mánuði en þar má lesa nánar um aðdraganda málsins, frétt sem afhjúpaði banatilræði gegn rússneska stjórnarandstöðuleiðtoganum Alexei Navalny, og hvernig Vladimir Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði leyniþjónustu sinni persónulega að komast til botns í því hvernig blaðamennirnir komust yfir upplýsingar sínar.

Þar kemur meðal annars fram að til stóð að handsama Christo í Úkraínu árið 2022. Þá ætlaði njósnarahópurinn að elta hann en tengiliður þeirra við Rússland stöðvaði þau og gaf til kynna að leyniþjónusta Rússlands væri sjálf með eitthvað á prjónunum. „Við vitum ekki hvað þeir ætla að gera en það tengist Grozev og þeim fundum sem hann er að fara á í Úkraínu. Kannski þarf hann bara farmiða aðra leið,“ sagði tengiliðurinn sem var enginn annar en austurríski athafnamaðurinn Jan Marsalek. Marsalek er eftirlýstur af Interpol og á flótta. Hann hefur notið aðstoðar og verndar rússneskra yfirvalda og er grunaður um að vera njósnari.

Ekkert kom þó fyrir blaðamanninn í Úkraínu en fáeinum vikum síðan hófst innrás Rússa. Sumarið 2022 stóð til að ræna Christo ef hann kæmi aftur til Búlgaríu og njósnararnir létu sig dreyma um að brenna hann lifandi. Skömmu síðar var Christ formlega eftirlýstur í Rússlandi. Marsalek benti njósnurunum á að nú væri kjörið tækifæri til að ráðast gegn blaðamanninum en áður en til þess kom lét breska lögreglan til skarar skríða.

Christo og samstarfsmaður hans eru enn að vinna að rannsóknum sínum, meðvitaðir um að stjórnvöld í Rússlandi vilja enn hafa hendur í hári þeirra. Því er haldið leyndu hvaðan blaðamennirnir vinna, til að gæta öryggis þeirra.

„Það er enn lærdómur sem ég hef dregið frá þessari raun, það er að í hvert sinn sem kemst að koma í veg fyrir hefndaraðgerð getur önnur komið í hennar stað. Við lifum og störfum í skugga stjórnvalda í Rússlandi sem hata óþolandi sannleiksriddara og frá mínu sjónarhorni þarf meira en eina sakfellingu til að breyta þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Leggja fram frumvarp til að fá „Trump-sturlun“ viðurkennda sem geðsjúkdóm

Leggja fram frumvarp til að fá „Trump-sturlun“ viðurkennda sem geðsjúkdóm
Pressan
Í gær

Upplausn á Suðurskautslandinu eftir að vísindamaður gekk af göflunum

Upplausn á Suðurskautslandinu eftir að vísindamaður gekk af göflunum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Svona langan tíma tekur það heilann að jafna sig eftir fyllerí

Svona langan tíma tekur það heilann að jafna sig eftir fyllerí
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ekki henda kaffikorginum – Þetta er hægt að nota hann í

Ekki henda kaffikorginum – Þetta er hægt að nota hann í