Næst þegar þú ætlar að henda kaffikorgi, þá skaltu hinkra aðeins og íhuga hvort eitthvað af eftirtöldu sé ekki eitthvað sem þú getur notað hann í.
Hresstu upp á ísskápinn – Ef það þarf að hressa upp á ísskápinn, þá getur kaffikorgur gert kraftaverk. Það er mikið köfnunarefni í kaffikorgi en það dregur slæma lykt í sig og eyðir henni. Ef þú ætlar að nota kaffikorginn í þetta þá þarf hann að þorna fyrst, svo hann mygli ekki. Settu hann í opið ílát og settu í hillu í ísskápnum. Skiptu um kaffikorg aðra hverja viku.
Við handþvott – Það er hægt að nota þurran kaffikorg við handþvott. Ef þú hefur til dæmis verið að skera hvítlauk eða lauk og vilt losna við lyktina, þá er bara að nudda smá kaffikorgi á hendurnar og skola með heitu vatni.
Ræktaðu sveppi – Ef þú ert hrifin(n) af sveppum og vilt rækta þína eigin, þá hentar kaffikorgur vel til þess. Hann er næringarríkur og hentar vel til svepparæktar.
Meyrt kjöt – Það er hægt að nota kaffikorg til að láta kjöt meyrna. Hann getur brotið kollagenið í kjötinu niður og þannig gert það meyrt. Kaffikorgurinn bætir síðan djúpu, jarðvegskenndu bragði við kjötbragðið en það hentar sérstaklega vel þegar grilla á kjötið. Til að nota kaffikorginn í þetta, þá skaltu blanda kaffikorgi saman við uppáhaldskryddin þín og nudda blöndunni á kjötið og láta liggja á því í eina klukkustund hið minnsta, ekki verra ef þú lætur það liggja yfir nótt. Síðan er bara að grilla kjötið eins og venjulega.
Þrif á pottum og pönnum – Kaffikorgur hentar vel til þrifa á skítugum pottum og pönnu. Hann virkar eins og slípiefni sem fjarlægir brenndar matarleifar og fitu án þess að rispa pottana og pönnurnar. Ef þú gerir þetta, þá skaltu fylla pottinn eða pönnuna með heitu sápuvatni. Bættu einni matskeið af kaffikorgi út í. Notaðu mjúku hliðina á svamp til að skrúbba skítugu svæðin. Skolaðu síðan vel með heitu vatni og þurrkaðu.