Brieonna missti stjórn á bílnum og endaði utan vegar en svo óheppilega vildi til að bíllinn fór í hvarf frá veginum fyrir ofan. Hún slasaðist töluvert í slysinu og sat þar að auki föst í bílnum og gat sig hvergi hreyft.
Alls liðu sex dagar þar til aðstoð barst en það gerðist eftir að athugull bílstjóri traktors, Johnny Martinez, kom auga á bílinn fyrir neðan veginn.
Hann hafði samband við félaga sinn, Jeremy Vanderwall, sem er slökkviliðsstjóri í bænum og fór hann á vettvang til að kanna málið.
„Hún sagðist hafa setið föst í bílnum síðan á miðvikudag en ég benti henni á að það væri þriðjudagur,“ segir Vanderwall í samtali við CBS News. Það var þá sem Vanderwall segist hafa munað eftir konu sem lýst hafði verið eftir og hafði verið saknað í tæpa viku.
Cassell var í heimsókn hjá móður sinni þann 5. mars síðastliðinn en slysið varð þegar hún var að aka heim til sín. Eins og myndin ber með sér fór bifreiðin ofan í stóran skurð og staðnæmdist þannig að framendi hennar var ofan í vatni.
Segja má að útsjónarsemi Cassell hafi bjargað lífi hennar en henni tókst að innbyrða vökva með því að dýfa peysunni sinni ofan í vatnið og sjúga vökvann úr henni.
Cassell var flutt á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Chicago þar sem í ljós komu alvarleg meiðsl á fótum meðal annars. Gæti farið svo að læknar þurfi að fjarlægja fætur hennar eftir slysið.
„Ég get bara ekki beðið eftir að fá að heimsækja hana, knúsa hana og kyssa,“ segir móðir hennar, Kim Brown, í samtali við fréttamiðilinn WLS.