DV greindi frá málinu í morgun sem varðar hina 56 ára Kimberly Sullivan sem er í haldi lögreglu vegna málsins.
Sjá einnig: Óhugnanleg sjón mætti viðbragðsaðilum – Grunuð um að halda stjúpsyni sínum föngnum í rúm 20 ár
Það var í febrúarmánuði sem slökkvilið var kallað að heimili í Waterbury í Connecticut vegna elds sem komið hafði upp. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang mætti þeim 32 ára karlmaður sem var illa á sig kominn.
Sagðist hann hafa kveikt eldinn því honum hefði verið haldið föngnum á umræddu heimili áratugum saman og hann vildi sleppa úr haldi.
Maðurinn var með skemmdar tennur, hárið í flækju og það sem vakti einna mesta athygli var að maðurinn var aðeins rúm 30 kíló.
Í frétt New York Post kemur fram að maðurinn hafi sætt skelfilegri meðferð öll þessi ár. Hann hafi fengið lítið að borða og drekka og aldrei farið til læknis. Þá hefði hann neyðst til að svala þorsta sínum með því að drekka vatn úr klósettinu þar sem hann fékk aðeins tvö glös af vatni á dag. Þá hafi hann notað flöskur og dagblaðapappír þegar hann þurfti að gera þarfir sínar.
Maðurinn var í skóla á árum áður en var tekinn úr honum, líklega af stjúpmóður sinni og/eða föður, þegar hann var unglingur. Áður en að því kom sætti hann einnig illri meðferð og sagði hann við lögreglu að hann hefði stolið mat af skólafélögum sínum og borðað upp úr ruslatunnum í skólanum.
„Þetta er eins og eitthvað úr hryllingsmynd og þá er ég ekki að ýkja neitt,” segir Don Therkildsen, saksóknari í málinu. Don segir að maðurinn hafi kveikt eldinn vitandi það að það gæti kostað hann lífið en hann hafi einfaldlega ekki getað meir.
Faðir mannsins lést á síðasta ári og virðist meðferðin á manninum ekki hafa batnað við það.
Hefur New York Post eftir nágrönnum að fólkið hafi haldið sig út af fyrir sig og segjast þeir aldrei hafa vitað af umræddum stjúpsyni fyrr en málið komst í fréttirnar.
Verjandi Kimberly segir að hún sé saklaus, stjúpsyninum hafi ekki verið haldið föngnum og hann hafi haft aðgang að mat. Telur verjandinn að Kimberly muni sanna sakleysi sitt þegar og ef málið fer fyrir dóm. Lögregla telur sig vera vissa í sinni sök og er Kimberly í haldi og þarf að reiða fram 300 þúsund dala tryggingu vilji hún ganga laus.