Hjartasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum. Vitað er að hreyfing og hollt mataræði skipta miklu þegar kemur að heilbrigði hjartans. Sumar matvörur geta í raun unnið gegn því sem þú leggur á þig varðandi hreyfingu og mataræði og því full ástæða til að hugsa vel um hvað maður borðar.
Meðal þess sem sérfræðingar segja að fólk eigi ekki að borða er:
Djúpsteiktur matur – það kemur örugglega ekki mörgum á óvart að djúpsteiktur matur á borð við franskar kartöflur og kjúkling er ekki það besta fyrir hjartað. Djúpsteiktur matur inniheldur mikið af transfitu og mettaðri fitu sem auka blóðfitumagnið sem getur aftur haft slæm áhrif á hjartað. Þess utan er djúpsteiktur matur oft mjög saltur en það getur hækkað blóðþrýstinginn og haft slæm áhrif á hjartað.
Beikon, pylsur og rautt kjöt – er eitthvað sem þarf að sýna aðgæslu varðandi neyslu á. Rautt kjöt inniheldur prótín og járn en of mikið af því getur haft slæm áhrif á hjartað. Beikon, pylsur og álegg og aðrar ofurunnar kjötvörur eru eitt það versta sem fólk getur látið ofan í sig, því þessi matvæli innihalda mikið af mettaðri fitu og natríum.
Feitar mjólkurvörur – ef þú elskar feitar mjólkurvörur á borð við smjör og feita osta, þá ættirðu kannski að íhuga að skera neysluna aðeins niður. Mjög feitar mjólkurvörur innihalda mikið af mettaðri fitu sem getur aukið magn LDL-kólesteróls og líkurnar á æðakölkun.
Sykur og bakkelsi – það segir sig eiginlega sjálft að of mikil neysla á sykri er ekki holl. Slík neysla getur haft neikvæð áhrif á þyngdina og hjartað. Ofurunnar kökur og sætindi innihalda mikið af unnum sykri og transfitu sem eykur líkurnar á of háum blóðþrýstingi, sykursýki og offitu. Sykur getur einnig aukið bólgur í líkamanum en það getur valdið tjóni á æðunum og hjartanu.
Orkudrykkir og sykraðir drykkir – sykraðir drykkir, orkudrykki og sykrað kaffi er ekki beinlínis hollt fyrir hjartað. Of mikil neysla getur valdið auknu blóðsykurmagni, offitu og insúlínviðnámi en þetta eru áhættuþættir varðandi hjartasjúkdóma.