Hannah Grundy er ung kona frá Ástralíu sem hefur opnað sig um ömurlega lífsreynslu.
Þetta byrjaði allt kvöld eitt í febrúar þegar hún fékk skuggaleg skilaboð. Þar mátti finna vefslóð og nafnlaus sendandi sagði að Grundy ætti að skoða hvað þar væri að finna enda varðaði það hana persónulega. Fyrst hélt hún að þetta væri enn einn svikapósturinn. Raunveruleikinn var þó mun verri.
Hún kíkti á vefslóðina og fann þá ógrynni af klámi. Það sem meira var – klámið sýndi Hönnuh sjálfa. Með kláminu mátti svo finna ógnvekjandi nauðgunarfantasíur um hana sem og ofbeldisfullar hótanir. Þarna mátti svo finna fullt nafn hennar, slóð á Instagram-síðu hennar, upplýsingar um búsetu hennar og svo símanúmerið hennar. Vefsíðan sem innihélt þetta allt saman hét: Tortíming Hönnuh. Efst á síðunni mátti finna könnun þar sem gestir fengu að kjósa um það hvernig væri best að misnota hana.
Nú eru þrjú ár liðin síðan Hannah fékk skilaboðin en hún er enn að komast yfir áfallið. Hún deilir sögu sinni með BBC.
Hannah og kærasti hennar áttuðu sig fljótt á því að klámið var búið til með svokölluðu deepfake-forriti og byggt á myndum sem hún hafði sjálf deilt á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar hennar voru lokaðir fyrir aðra en vini svo það var ljóst að einhver sem hún þekkti hafði deilt þessu.
Hannah leitaði til lögreglunnar en segir að það hafi verið barnalegt af henni að trúa því að eitthvað yrði gert. Henni var mætt með fyrirlitningu. Hún var sögð gera úlfalda úr mýflugu.
Þá leitaði hún til lögmanns sem fékk sérfræðing í stafrænum rannsóknum til að komast til botns í málinu. Hönnuh fór að gruna að vinur hennar, Andy, væri sá seki. Hún vildi ekki trúa því enda var hann einn nánasti vinur hennar og kærastans hennar. Þau kölluðu hann límið í vinahópnum sínum. Hann var maðurinn sem passaði að konur væru öruggar á djamminu og Hannah treysti honum fyrir lífi sínu. En með því að nota útilokunaraðferðina kom á endanum enginn annar til greina.
Á meðan hún fékk engin svör frá lögreglu eða lögmanni fór hún að óttast að Andy ætlaði að vinna henni mein. Hún setti upp öryggismyndavélar á heimili sínu og hún fór aldrei út úr húsi nema með snjallúr á sér svo einhver nákominn fengi skilaboð ef hjartsláttur hennar færi upp úr öllu valdi eða ef hjarta hennar stöðvaðist alfarið.
„Við sváfum með hníf í náttborðinu okkar því við hugsuðum bara – hvað ef?“
Loksins tók nýr rannsóknarlögreglumaður við málinu og þá fóru hjólin að snúast. Lögregla gerði húsleit á heimili Andy, sem hana grunaði um græsku, og hann játaði allt. Hún hafði vonað að hann væri ekki sekur. Hann hafði alltaf reynst henni vel og ekkert benti til þess að hann væri fær um nokkuð svona.
Þegar Andy var handtekinn var það ekki refsivert að búa til eða dreifa deepfake-klámi í Ástralíu. Þetta var því fordæmalaust mál þegar það kom fyrir dómstóla. Hannah var beðin um að stilla væntingum í hóf en ákæruvaldið reyndi að ákæra Andy fyrir áreitni. Eins kom á daginn að hann hafði gert þetta við fleiri konur, þar með taldar fleiri konur sem töldu hann vin sinn.
Ein þeirra, Jess, sagði fyrir dómi: „Þú sveikst ekki bara vináttu okkar heldur rústaðir öryggistilfinningunni sem ég tók áður sem sjálfsögðum hlut. Heimurinn er núna ókunnugur mér og hættulegur. Ég er stöðugt á verðinum, ég fæ martraðir þegar ég næ einu sinni að sofna. Það virðist ómögulegt að eignast nýja vini þegar maður þarf stöðugt að velta því fyrir sér hvort þessi manneskja sé eins og þú.“
Andy útskýrði fyrir dómi að honum þótti valdeflandi að búa klámið til og þannig fengi hann útrás fyrir myrkar kenndir sínar. Honum datt ekki til hugar að þetta myndi skaða nokkurn. Hann reyndi að biðjast afsökunar en bæði Hannah og Jess ruku út úr dómsalnum enda ekki hægt að fyrirgefa svona framkomu.
Dómari tók málinu alvarlega og dæmdi Andy í 9 ára fangelsi.
Hannah segir að það sé bara ekki nóg. Hún þarf enn í dag að kaupa þjónustu á netinu til að tryggja að þessar myndir finnist ekki aftur. Hún óttast líka að framtíðarbörn hennar muni finna þær. Andy tók myndir sem hún hafði deilt af góðum stundum úr lífi sínu. Hann breytti þessum minningum í martraðir.
„Þú deilir hlutum á Facebook og Instagram því þetta eru hamingjustundir lífsins. Þú færð þér hund, kaupir hús, trúlofar þig og þú deilir mynd. Hann afskræmti allar þessar minningar og gerði þær að klámi. Svo nú þegar ég sé svona mynd þá sé ég sjálfa mig verða fyrir nauðgun.“