fbpx
Mánudagur 10.febrúar 2025
Pressan

Mál USAID sláandi dæmi um dreifingu falsfrétta – Fullyrðingarnar sem standast ekki skoðun

Pressan
Sunnudaginn 9. febrúar 2025 22:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Donald Trump ætlar að leggja niður þróunar- og mannúðaraðstoðarstofnunina USAID. Um er að ræða lið í hagræðingaaðgerðum sem auðkýfingurinn Elon Musk fer fyrir. Undanfarna viku hafa birst ævintýralegar fréttir um meint misferli USAID sem á að hafa múta leikurum til að auka stuðning við Úkraínu, mútað fjölmiðlum, styrkt dóttur fyrrverandi forseta og kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein. En er þetta rétt?

Bandarískir miðlar og staðreyndavaktir hafa undanfarna daga reynt að vinda ofan af þessu furðulega máli sem sýnir hvað það þarf lítið til að falsfréttir fara á flug. Margt byggir á misskilningi og sumt mætti kalla hreinan og beinan áróður úr herbúðum Rússa.

Leikurum var ekki borgað fyrir stuðning við Úkraínu

Falsmyndband fór í dreifingu í vikunni þar sem því var haldið fram að USAID hefði borgað utanlandsferðir fyrir stórstjörnur á borð við Angelinu Jolie, Sean Penn, Orlando Bloom og fleiri. Fyrir þetta hafi þau fengið milljónir og í staðinn lýst stuðningi við Úkraínu til að styrkja ímynd forseta landsins, Volodimir Zelensky hjá alþjóðasamfélaginu.

New York Times segir myndbandið vera á vegum áróðursherferðar sem rannsakendur kalla Operation Overload eða Matryoskha í höfuðið á vinsælum rússneskum babúsku trédúkkum. Á bak við þessa herferð er einkafyrirtæki sem er með tengsl við stjórnvöld í Rússlandi. Myndbandið sýndi klippur af þekktum leikurum mæta til fundar við Zelensky. Síðan heyrðist í lýsanda myndbands sem fullyrti að leikararnir hefðu fengið hundruð milljóna fyrir þessa fundi. Með þessu móti hafi tekist að tryggja fjárstuðning til Úkraínu í átökunum við Rússa.

Tveir stórir rússneskir miðlar, Tsardgrad  sem er ríkisrekinn og Pravda sem er þekktur fyrir að dreifa áróðri, voru fljótir að fjalla um myndbandið sem fór í kjölfarið í dreifingu á Telegram á spjallrásum sem dreifa upplýsingaóreiðu. Loks náði það til Bandaríkjamanna sem notuðu það til að hvetja Trump og Musk áfram í að afhjúpa „spillinguna“. Mynbandið bar með sér að koma frá bandaríska dægurmiðlinum E!News, en miðillinn segist ekki hafa komið nálægt því. Leikarinn Ben Stiller er einn þeirra sem er sakaður um að hafa fengið borgað frá USAID en hann segir það af og frá. Hann hafi sjálfur borgað ferð sína til Úkraínu og ekki fengið nokkurn styrk.

USAID var ekki að fjármagna ýmsa fjölmiðla

Önnur falsfrétt um USAID sem hefur náð miklu flugi og meira að segja komið til umræðu í íslenskum stjórnmálahópum á samfélagsmiðlum er að stofnunin hafi verið að styrkja eða múta ýmsum fjölmiðlum þar með talið New York Times, Politico, AP og BBC. Vissulega hefur bandaríska ríkið borgað þessum miðlum tilteknar fjárhæðir en það á sér eðlilegar skýringar – þetta voru áskriftir og greiðslur fyrir auglýsingar. Til að setja þetta í samhengi má benda á að ráðuneyti, stofnanir og aðrir í ríkisrekstri eru margir með áskrift að Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu, Heimildinni og svo framvegis. Í tilfelli Politico var um nokkuð háar fjárhæðir að ræða sem má rekja til þess að miðillinn býður upp á greiningatól sem sumir hafa notað við stefnumótun og eins eru þeir með sértæka fagmiðla til viðbótar við hefðbundnu fréttaveitu sína.

Rannsóknarblaðamaður hjá AP skrifaði á X: „Ég skoðaði þessa samninga og er með skemmtilega staðreynd. Þetta má rekja til þess að ríkisstofnanir (ekki bara USAID) eru að kaupa fyrirtækjaáskrift að vöru á vegum Politicu, en ekki til þess að Politico sé að fá styrki eða annars konar opinbera fjárveitingu.“

Þessi falsfrétt fór á mikið flug og virðist byggja fyrst og fremst á misskilningi þar sem áhrifavaldar frá íhaldinu föttuðu ekki að þessar greiðslur gætu í raun verið kaup á þjónustu. Stjórnendur Politico, Goli Sheikholeslami og John Harris, sendu minnisblað til starfsmanna á miðvikudag þar sem tekið var fyrir að miðillinn hefði þegið styrki frá hinu opinbera.

„POLITICO hefur aldrei notið góðs af opinberum aðgerðum eða styrkjum, ekki krónu, aldrei síðustu 18 ár.“

Miðillinn viðurkenndi að ríkisstofnanir séu í fyrirtækjaáskrift eins og mörg önnur fyrirtæki úr einkageiranum. Enginn sé þvingaður til að vera í slíkri áskrift heldur hafa þessir aðilar ákveðið að gerast áskrifendur því þeir töldu af því gagn.

AP-fréttastofan tekur fram að alríkið hafi lengi verið meðal viðskiptavina miðilsins og það bæði í valdatíð forseta frá demókrataflokki sem og repúblikanaflokki. Miðillinn hafi ekki fengið styrki frá eða greiðslur frá USAID heldur frá hinum ýmsu deildum og stofnunum bandaríska ríkisins.

CNN tekur fram að það sé engan veginn óþekkt að alríkisstarfsmenn séu með áskrift að fréttamiðlum sem bjóða upp á staðreyndir og greiningar sem starfsmenn nýta í starfi sínu.

Eins hefur verið bent á að fullyrðingar um meinta styrki til New York Times byggist á neyðarlegum misskilningi. Netverjar hafi óvart séð styrki til annarra stofnana sem hafa New York í nafni sínu og lagt það að jöfnu við miðilinn, t.d. háskólann í New York. Eins með BBC.  Styrkir voru ekki veittir til fréttahluta miðilsins heldur til BBC Media Action sem eru alþjóðleg góðgerðarsamtök.

Smokkar fyrir milljarða til Gaza?

Trump hefur haldið því fram að Bandaríkin hafi sent smokka fyrir fleiri milljarða til Gaza. Þessir smokkar áttu að vera fyrir Hamas-samtökin. Þarna er líka um falsfrétt að ræða. Líklega er Trump að vísa til styrkja sem USAID greiddi til alþjóðlegu læknasamtakanna IMC og NGO sem hafa verið að veita læknisþjónustu á Gaza-ströndinni. Ekkert af þessum styrkjum fór í getnaðarvarnir.

Greiðslur til Jeffrey Epstein?

Því er haldið fram á samfélagsmiðlum að USAID hafi verið að senda peninga til athafna- og kynferðisbrotamannsins, Jeffrey Epstein. Þetta er rangt. Mögulega er um misskilning að ræða þar sem nafni kynferðisbrotamannsins Jeff Epstein, tók við þessum greiðslum fyrir hönd Keiser Foundation sem rekur spítala. Eins fór þessi greiðsla fram árið 2023 og kynferðisbrotamaðurinn Epstein lést árið 2019.

En milljarðarnir til Chelsea Clinton?

Því var haldið fram að rithöfundurinn Chelsea Clinton hefði fengið hundruð milljarða frá USAID, en hún er dóttir fyrrum forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton. Þetta er líka rangt. Þessi peningur fór til Clinton Foundation og þetta voru ekki 84 milljónir Bandaríkjadala eins og haldið er fram heldur 7,5 milljónir. Það var öfgahægri miðillinn WorldNetDaily, sem er þekktur fyrir að dreifa samsæriskenningum, sem birti frétt um þetta með vísan í færslu frá Elon Musk. Snopes segir að annaðhvort hafi slík færsla aldrei verið til eða þá að Musk hafi eytt henni. Clinton-sjóðurinn eru óhagnaðardrifin góðgerðarsamtök sem stunda mannúðaraðstoð. Chelsea Clinton starfar fyrir sjóðinn en þiggur engin laun.

Á árunum 2008-2024 hefur USAID aðeins styrkt eitt verkefni á vegum sjóðsins, Clinton Healt Access Initiative sem var stofnað af sjóðnum sem sjálfstæð samtök.

Hvað með trans óperu, söngleik og teiknimyndasögu?

Fréttir um ýmis verkefni sem USAID styrkti sem varða trans fólk, hinsegin samfélagið og fjölbreytileika eru ekki úr lausu lofti gripnar.

USAID studdi við verkefni sem varðaði fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu í Serbíu. Serbía telst standa öðrum Evrópuþjóðum aftar hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Stofnun á vegum Evrópusambandsins stóð fyrir þriggja ára verkefni til að bæta stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði. USAID styrkti þetta verkefni.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna styrkti samtök á Írlandi sem stóðu fyrir tónlistarviðburði fyrir bandaríska sendiráðið í Dyflinni árið 2022. Viðburðurinn átti að sýna hæfileika Bandaríkjamanna og Íra í gegnum fjölbreytta dagskrá með áherslu á fjölbreytileika, inngildingu og jafnrétti. USAID kom ekki að fjármögnun viðburðarins.

Hvað varðar svokallaða transóperu í Kólumbíu þá stóð háskólinn í Bogotó fyrir uppsetningu á óperu sem kallast Sem eitt. Verkið var samið í Bandaríkjunum og frumflutt árið 2014, aðalpersónan í verkinu er trans. Það var utanríkisráðuneytið sem styrkti verkefnið en ekki USAID.

Árið 2021 gaf bandaríska sendiráðið í Perú út teiknimyndabók sem kallaðist Máttur menntunar sem átti að kynna menntun og skiptinám í Bandaríkjunum. Ári síðar var gefið út annað tölublað af bókinni. Sendiráðið bað framleiðendur bókarinnar að hafa seinni bókina um samkynhneigðan nemanda og sýna hversu erfitt það hefði verið að koma út úr skápnum við foreldra sína. Sagan fjallaði ekki um trans fólk. Sendiráðið vildi hafa aðalpersónuna samkynhneigða til að bregðast við fordómum gegn samkynhneigðum í Perú. Fyrst og fremst átti verkefnið þó að kynna nám í Bandaríkjunum. Það var utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sem samþykkti styrkinn.

Mál USAID sýnir hvað það þarf lítið til að fiskisögurnar fari á flug og á tímum samfélagsmiðla er erfitt að eiga við slíkt. Það er nóg að einhver birti eitthvað á samfélagsmiðlum og þá er skaðinn skeður. Mögulega á eftir að koma á daginn að eitthvað var í ólagi í rekstrinum, en það mun þó líklega blikkna í samanburði við þær falsfréttir sem eru nú í dreifingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 21 klukkutímum

Lagaprófessor rekur hvernig Elon Musk hefur mölbrotið lög undanfarið – „Þetta er mjög furðulegt og líklega ólöglegt“

Lagaprófessor rekur hvernig Elon Musk hefur mölbrotið lög undanfarið – „Þetta er mjög furðulegt og líklega ólöglegt“
Pressan
Í gær

Fjögur merki um að þú eigir að biðja um launahækkun

Fjögur merki um að þú eigir að biðja um launahækkun
Pressan
Í gær

Keypti jakka í notað og nýtt verslun – Fólki finnst að hún eigi ekki að nota hann út af því sem hún fann í honum

Keypti jakka í notað og nýtt verslun – Fólki finnst að hún eigi ekki að nota hann út af því sem hún fann í honum
Pressan
Í gær

Nokkur góð ráð til að komast hjá því að veikjast

Nokkur góð ráð til að komast hjá því að veikjast
Pressan
Fyrir 2 dögum

Eiturlyfjakóngurinn með barnsandlitið

Eiturlyfjakóngurinn með barnsandlitið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hermennirnir frá Norður-Kóreu sjást ekki lengur á vígvellinum – Miklir ósigrar og mikið mannfall

Hermennirnir frá Norður-Kóreu sjást ekki lengur á vígvellinum – Miklir ósigrar og mikið mannfall