Kennarinn Aaron Craig Gleason er ekki hrifinn af fólki sem tilheyrir hinsegin samfélaginu. Hann hefur skrifað greinar hjá íhaldsmiðlum sem hafa mikla hægri slagsíðu, miðlar á borð við The Daily Wire, The Federalist og The Imaginative Conservative. Þar hefur Gleason meðal annars farið hörðum orðum um dragdrottningar sem hann segir stunda tælingu (e. grooming) á börnum. Eins telur hann að hinsegin samfélagið sé að kyngera börn með hinsegin fræðslu.
Hann skrifaði meðal annars á miðilinn X sumarið 2023 um gleðigöngu dragdrottninga í New York: „Við erum hér, við erum hýr og við erum á eftir börnunum ykkar. Engin tæling hér, þau eru bara á eftir börnunum ykkar.“
Þessi sami Gleason kennir börnum á miðstigi í kristilegum grunnskóla.
Hann var í lok janúar handtekinn og ákærður fyrir kynferðislega áreitni barns sem er yngra en 12 ára. Hann var handtekinn í Flórída þann 28. janúar og samkvæmt ákæruskjali er honum gert að sök að hafa með ásetningi brotið kynferðislega gegn barni undir 12 ára aldri. Dómari úrskurðaði að Gleason ætti að vera í gæsluvarðhaldi þar til og ef hann reiddi fram rúma milljón í tryggingu.
Stjórnendur skólans sem hann kennir við sendu tilkynningu til foreldra eftir handtökuna: „Það er með þungum hug sem ég tilkynni að einn kennari miðstigs var handtekinn af lögreglu í dag. Kennarinn hefur verið í launuðu leyfi undanfarnar tvær vikur og ekki verið á skólasvæðinu. RBCS [skólinn] ætlar að veita yfirvöldum fullt samstarf þar til niðurstaða fæst í málinu. Vinsamlegast biðjið fyrir skólanum okkar og nemendum á þessum erfiða tíma.“
Á LinkedIn-síðu Gleason, sem nú hefur verið fjarlægð, sagði hann um sjálfan sig: „Ég lít á mig sem fyrst og fremst kennara. Ég er kristinn og íhaldssamur. Ég trúi því að allt sem ég geri þurfi að tengjast þjónustu minni við leiðtoga lífs míns, Jesús Krist. Hann gaf líf sitt fyrir mig og ég þarf að helga líf mitt honum.“
Samkvæmt ákæru átti meint brot sér stað í skólanum þar sem þolandi var nemandi. Nemandinn segir að Gleason hafi faðmað hana og svo gripið um rass hennar. Þar hafi hann nuddað þumli upp og niður rass hennar. Tveir aðrir nemendur sáu þetta eiga sér stað. Nemandinn greindi eins frá því að Gleason hafi sagt við hana hluti sem létu henni líða óþægilega, meðal annars spurt hana hvort hún ætti kærasta og hvort hún væri að kúra með honum á kvöldin og eins gefið til kynna að hún væri með blómaspennu í hárinu til að ganga í augun á honum. Gleason var kennari nemandans og mun þetta hafa átt sér stað í kennslustund í biblíufræðum.
Hinsegin miðillinn LGBTQ Nation bendir á að það sé ákveðin hræsni í málflutningi manna á borð við Gleason sem berjast gegn réttindum hinsegin fólks. Þeir vitni ítrekað í kristna trú en skeyti engu um langa sögu kristinnar kirkju um misnotkun barna þegar þeir gagnrýna dragdrottningar og aðra úr hinsegin samfélaginu um að kyngera börn.