Um ellefu þúsund norðurkóreskir hermenn eru taldir hafa verið sendir til Rússlands og þaðan til Úkraínu til að berjast í stríðinu. Fréttir af miklu mannfalli í röðum Norður-Kóreumanna vöktu talsverða athygli fyrir skemmstu og virðast Rússar eða Norður-Kóreumenn hafa dregið herliðið til baka.
Breska blaðið Guardian greinir frá þessu og vísar í upplýsingar frá leyniþjónustu Suður-Kóreu sem fylgist vel með gangi mála í norðri.
Hermennirnir voru sendir til Rússlands og Úkraínu síðla árs 2024 eftir að leiðtogar Norður-Kóreu og Rússlands, Kim Jong-un og Vladimír Pútín, handsöluðu samning um að þjóðirnar kæmu hvor annarri til aðstoðar, meðal annars á sviði hernaðarmála.
Leyniþjónusta Suður-Kóreu segir að minnst 300 norðurkóreskir hermenn hafi fallið í stríðinu og 2.700 slasast, þar af margir alvarlega.
Hélt stofnunin því fram að á líkum sumra hermanna hafi fundist bréf þar sem fram kom að ætlast væri til þess að þeir myndu svipta sig lífi í stað þess að verða teknir höndum.