Burton, sem er 23 ára, var í vikunni sakfelldur fyrir að vera höfuðpaurinn í stórum fíkniefnahring sem stóð að innflutningi á samtals 307 kílóum af heróíni, kókaíni og ketamíni til Bretlandseyja. Annar höfuðpaur í málinu, hin 25 ára gamla Sian Banks, var einnig sakfelld og eiga þau bæði margra ára fangelsi yfir höfði sér.
Í frétt Mail Online kemur fram að Burton hafi verið aðeins tíu ára gamall þegar hann byrjaði að selja eiturlyf á götum Bretlands. Segja kunnugir að það hafi ekki komið þeim neitt á óvart að Burton skildi reyna fyrir sér í glæpum og þá sérstaklega í fíkniefnaviðskiptum þar sem miklir peningar eru undir.
„Hann var í allskonar rugli þegar hann var ungur. Hann byrjaði að selja fíkniefni fyrir eldri fíkniefnasala þegar hann var tíu ára gamall. Hann var með svo barnslegt andlit og þótti tilvalinn í þetta verkefni af eldri fíkniefnasölum,“ segir aðstandandi Burtons.
Hann komst í kast við lögin ungur að árum, lenti í slagsmálum og hljópst á brott með þeim afleiðingum að lýst var eftir honum af lögreglu. Nítján ára gamall flutti hann til Amsterdam og er talið að á þeim tímapunkti hafi hann þegar verið orðinn umsvifamikill í viðskiptum með fíkniefni.
Burton tókst að smygla miklu magni af fíkniefnum til Bretlands með því að fela þau í sendiferðabílum sem voru á leið til Bretlands. Tveir slíkir bílar voru stöðvaðir í Dover sumarið 2022 og um borð voru sem fyrr segir 307 kíló af eiturlyfjum. Söluverðmæti efnanna hljóp á um þremur milljörðum króna.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að Burton var viðriðinn málið og var umsvifamikil leit gerð að honum í kjölfarið. Hún bar ekki árangur fyrr en ári seinna þegar hann var handtekinn á næturklúbbi á Ibiza á Spáni.
Dómur í máli Burtons verður kveðinn upp þann 12. febrúar næstkomandi.