Þetta er 50p peningur sem var sleginn 2019. Breska myntsláttan, Royal Mint, sló eina milljón 50p mynta með dagsetningunni 31.10.2019 en þann dag átti útgönguferli Breta úr ESB að hefjast. Það frestaðist hins vegar og hófst ekki fyrr en 31.01.2020 og var annað upplag af 50p mynt þá slegið með þeirri dagsetningu.
Fyrri sláttunni, þessari með dagsetningunni 31.10.2019, var þá fargað, brædd.
Talið var að öll sláttan hefði verið brædd en nú hafa tvær myntir úr þessari sláttu komið fram í dagsljósið. Þær eru að vonum ákaflega sjaldgæfar og má jafna því við stóran lottóvinning að finna eina slíka.
The Telegraph hefur eftir Gregory Edmund, hjá uppboðshúsinu Spink and Son, að reikna megi með að 40.000 pund, sem svarar til 7 milljóna íslenskra króna, fáist fyrir mynt úr þessari sláttu. Hann er að vonum spenntur fyrir að vita hvort fleiri en þessar tvær hafi sloppið við bræðslu.