Fjölmiðlamaðurinn Ezra Klein hjá The New York Times hefur birt hugvekju um fyrstu tvær vikur Donald Trump í embætti. Klein segir augljóst hvað Trump sé að reyna og það sé mikilvægt að fólk trúi því ekki að forsetinn hafi vald sem hann ekki hefur – bara því hann segist hafa það.
Klein birti myndband á TikTok sem hefur vakið mikla athygli. Þar rekur hann að Trump sé að beita ákveðinni aðferðafræði sem einn hans helsti ráðgjafi og stuðningsmaður, Steve Bannon, fjallaði um í viðtali við PBS árið 2019. Bannon rakti þar að öflugasta stjórnarandstaðan séu fjölmiðlar. Fjölmiðlar séu þó ekki fullkomnir. Þeir geti aðeins einbeitt sér að einu í einu. Þannig sé hægt að ná tökum á umræðunni með því að hreinlega gefa fjölmiðlum alltof mikið til að fjalla um. Þannig sé hægt að kaffæra umræðuna með offlæði upplýsinga – hann kallaði aðferðina kraft múlbindingarinnar.
Samkvæmt Klein hefur Trump fylgt þessum ráðum Bannon. Hann hafi strax við embættistöku skrifað undir 200 forsetatilskipanir á einu bretti. Nánast daglega komi svo nýtt mál frá ríkisstjórn forseta sem vekur reiði. Fjölmiðlar og almenningur eru uppgefin og ná ekki utan um neitt.
Trump náðaði uppreisnarmennina sem tóku þátt í áhlaupinu á þinghúsið í janúar 2021. Trump skrifaði undir tilskipun um að börn fái ekki sjálfskrafa ríkisborgararétt þegar þau fæðast í Bandaríkjunum. Elon Musk framkvæmdi meinta nasistakveðju í beinni útsendingu, brottvísanir innflytjenda hófust í massavís, opinberar lánveitingar og styrkir voru frystar, það er verið að bola alríkisstarfsmönnum úr starfi með fordæmalausum aðgerðum, það á að opna innflytjendabúðir í Guantanamóflóa, Mexíkóflói heitir núna Ameríkuflói og svo framvegis og framvegis.
Þetta hefur líka bitnað á raunverulegu stjórnarandstöðunni, demókrötum, sem og hinum ýmsu hagaðilum sem hafa hreinlega ekki fengið rönd við reist síðustu tvær vikur.
„Það er erfitt að ná utan um þetta allt. Fyrstu tvær vikur Trump í Hvíta húsinu hafa fylgt þessari forskrift Bannon. Markmiðið er að kaffæra umræðuna. Skilaboðin er ekki að finna í sérstakri forsetatilskipun eða tilkynningu heldur í heildarmyndinni. Skilaboðin eru þau að þjóðin er nú á valdi Trump. Þetta er hans stjórn. Hans vilji ræður. Skilaboðin eru að hann er óstöðvandi.“
Klein biður fólk um að staldra aðeins við. Ekki trúa forsetanum. Trump sé meðvitaður um að trúin flytji fjöll. Ef nógu margir trúa því að eitthvað sé satt, þá verður það samþykkt sem sannleikur. Trump hafi spilað þennan leik þegar hann tapaði forsetakosningunum árið 2020. Hann viðurkenndi aldrei ósigur. Hann hélt fram kosningasvikum, hvatti til áhlaups á þinghúsið og lýsti sig ítrekað sigurvegara. Stuðningsmenn hans hafi tekið því sem heilögum sannleika. Trump tapaði ekki, hann vann.
Trump hafi þó aldrei langað til að vera forseti. Hann vill meira. Hann vill vera kóngur. Nú ætlar hann að láta eins og kóngur þar til þjóð hans trúir því að hann sé það. Þannig muni þjóðin krýna hann. Klein bendir á að í raun hefur Trump bara sömu valdheimildir og forverar hans í embætti. Hann megi vissulega náða brotamenn og afturkalla öryggisgæslu fyrrum embættismanna. Hann getur þó ekki endurskrifað stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Frá því hann tók við embætti hefur hann fyrst og fremst skrifað undir forsetatilskipanir enda hafi hann góða ástæðu fyrir því. Hann er veikur á löggjafarþinginu. Repúblikanar eru með nauman meirihluta bæði í fulltrúadeildinni og öldungarþinginu. Ætli Trump með mál sín í gegnum þingið þarf hann að fá einróma stuðning þingmanna sinna, en Trump getur ekki treyst því að það gerist. Ef fáeinir þingmenn setja sig á móti frumvörpum hans munu mál hans ekki ná fram að ganga og Trump verður niðurlægður.
„Þingið er staður þar sem hann getur tapað. Þetta er akkulesarhællinn á stefnu Trump. Trump er að þykjast vera kóngur því hann er of veikburða til að leiða þjóðina sem forseti.“
Klein segir að Trump sé svo að lenda í vandræðum með Musk. Musk ætli sér að taka ríkisreksturinn í gegn eins og hann tók Twitter í gegn þegar hann eignaðist samfélagsmiðilinn. Musk átti sig ekki á því að það gilda önnur lögmál hjá hinu opinbera. Twitter þoldi nokkrar vikur þar sem allt var í steik. Það þoli hið opinbera ekki – fólk treystir á hið opinbera varðandi fjárhagsaðstoð og aðra mikilvæga þjónustu. Tilteknir hópar þoli ekki rof á þjónustu og auk þess hefur ríkið skyldum að gegna gagnvart þeim.
Aðferðafræði Bannon sé líka gölluð. Hún byggi á stöðugu öngþveiti, stöðugum æsingi og úlfúð. Á endanum mun óreiðan ná til ríkisstjórnarinnar sem mun kaffæra sjálfa sig. Nú þegar hafi hægt nokkuð á og fjölmiðlar, stjórnarandstaðan og fleiri andspyrnumenn séu farnir að ná áttum. Klein bendir sérstaklega á Reddit-síðu alríkisstarfsmanna þar sem þeir leka upplýsingum um það sem er að eiga sér stað bak við tjöldin. Þessir starfsmenn eru að mótmæla aðgerðum Trump og segjast ætla að standa vörð um lýðræðið, réttarríkið og stjórnarskrána.
„Trump er ekki að afla sér fylgis. Hann er að tapa því. Trump er ekki að tvístra andspyrnunni, hann er að sameina hana.“
Klein segir að Trump hafi mistekist að varpa fram þeirri mynd að hann sé sterkur leiðtogi með ótakmarkað vald. Þvert á móti hafi hann sýnt hvað hann er veikburða. Raunverulega hættan sé fólgin í því að honum takist að spila á þjóðina.
„Raunverulega hættan er það að hann sannfæri okkur hin um að hann hafi vald sem hann hefur ekki. Fyrstu tvær vikur forsetans hafa ekki sýnt fram á styrk hans. Hann er að reyna að kaffæra ykkur. Hann er að reyna að slá ykkur út af laginu. Hann er að reyna að sannfæra ykkur um eitthvað sem er ekki satt. Ekki trúa honum.“
@nytopinion @nytopinion columnist Ezra Klein argues that if you look closely at the first two weeks of Donald Trump’s second term, you’ll see something very different than what he wants you to see. #nytopinion ♬ original sound – New York Times Opinion