Í frétt Aftonbladet kemur fram að árásarmaðurinn hafi verið 35 ára og líklega komið inn í skólann með skotvopn falið í gítartösku. Hann er sagður hafa farið inn á salerni í skólanum og haft þar fataskipti áður en hann lét til skarar skríða. Var maðurinn klæddur i grænan hermannabúning þegar hann gekk um ganga skólans og hleypti af.
Sjá einnig: Svanfríður var á vettvangi hryllingsins í Svíþjóð: Blóðugar manneskjur, mikil öskur og angist
Í frétt Aftonbladet kemur fram að maðurinn hafi verið búsettur í Örebro og ekki komið við sögu lögreglu áður. Segir fólk sem þekkti til hans í samtali við blaðið að hann hafi haldið sig að mestu út af fyrir sig síðustu ár.
„Hann var einfari og við höfum ekki átt mikil samskipti við hann á síðustu árum. Sem barn var hann dálítið öðruvísi en fjörugur. Honum gekk vel í skóla en hann hafði átt erfitt uppdráttar á síðustu árum,“ segir einn.
Þá er haft eftir einstaklingi sem þekkti til hans að hann hafi skipt um nafn fyrir nokkrum árum og það hafi komið aðstandendum hans í opna skjöldu. „Hann átti vin sem hann var oft með en ekki upp á síðkastið. Hann vildi halda sig til hlés og virtist ekki líka við fólk.“